Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[12:57]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans andsvar. Ég er ekki mótfallinn því að verið sé að gera breytingar á lögum. Það er reyndar hlutverk okkar hér að bæta lög og setja ný. Megintilgangur okkar með lagasetningu hlýtur alltaf að vera að bæta eitthvað sem fyrir er. Það ætti að vera það sem við erum að gera hér á þingi. Þá veltir maður fyrir sér: Þegar við erum að setja lög ættu þau þá ekki að hljóma þannig að um þau ríki sátt að mestu leyti? Það er greinilegt að þessum lögum sem nú er verið að breyta og þessi nýju lög sem verið er að setja vekja úlfúð alls staðar úti í samfélaginu og ekki síst hjá þeim aðilum sem hafa eytt miklum tíma í að ramma inn skoðun sína á málaflokknum og vandað sig mjög við að veita allsherjar- og menntamálanefnd ráðgjöf í málinu. Einhverra hluta vegna er maður að upplifa það þegar maður heyrir ræður þingmanna hér, sem eru margir hverjir mjög vel að sér í þessum málaflokki, að ekkert tillit hafi verið tekið til þeirra umsagna sem fram hafa komið nema þá helst umsagnar dómsmálaráðuneytisins.

Jú, við eigum sífellt að vera á vaktinni, tilbúin til að breyta því sem batnað getur. En ég fæ ég ekki séð að þessi breyting á löggjöfinni sé að gera það.