Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[12:59]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Forseti. Af því að hv. þingmaður notaði orðið úlfúð þá langar mig að víkja aðeins að úlfúðinni sem virðist ríkja í hluta grasrótar eins stjórnarflokkanna. Það kviknaði líf þegar opið bréf birtist frá fólki í grasrót Vinstri grænna og þau kölluðu eftir að þingflokkurinn beitti sér á annan hátt í frumvarpinu en hann hefur gert til þessa. Það var haldinn félagsfundur á laugardaginn var og ég batt vonir við að annað hljóð kæmi í vinstri græn. En daginn eftir mætti fulltrúi flokksins í allsherjar- og menntamálanefnd, hv. þm. Jódís Skúladóttir, í Silfrið og var með alveg makalausan málflutning; hrærði m.a. saman umræðu um innflytjendur almennt og flóttafólk sérstaklega; hún benti á heimabyggð hv. þingmanns, kallaði það reyndar Reykjanes en var víst að tala um Suðurnesin, sagði að þar væru 30% íbúa útlendingar og spurði hvort það væri raunveruleiki sem við vildum í öll sveitarfélög. (Forseti hringir.)

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Er þetta ekki bara ágætur raunveruleiki? Það eru áskoranir sem felast í þessu en þarna er líka fólk sem glæðir samfélagið nýju lífi. Þarna eru vinnandi hendur, þarna eru nýjar hugmyndir. (Forseti hringir.) Þarna eru einstaklingar, fólkið sem býr til samfélag.