Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[13:02]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Nú hefur hv. þingmaður verið bæjarfulltrúi í bæjarstjórn Reykjanesbæjar og þekkir mjög vel þennan málaflokk í Reykjanesbæ. Reykjanesbær var frumkvöðull í að taka á móti flóttamönnum og hefur staðið sig vel í því. En nú er svo komið að Reykjanesbær er kominn að þolmörkum og bæjarstjórinn hefur gefið það út. Velferðarráð Reykjanesbæjar bókaði nýverið, þann 18. janúar síðastliðinn, þar sem segir að mikilvægt sé að ná niður fjölda flóttafólks fyrir lok árs. Þeir leggja hér áherslu á að senda skýr skilaboð til félags- og vinnumarkaðsráðherra um að í lok ársins 2023 verði ljóst að markmið samningsins, þ.e. samstarfssamningsins um samræmda móttöku flóttafólks við ríkið, standi um að ná fjöldanum úr 350 manns niður í 150 manns um áramótin. Í bókuninni segir einnig:

„Það gefur augaleið að innviðir okkar munu til framtíðar ekki ráða lengur við þetta umfangsmikla verkefni, sér í lagi ef fjöldinn eykst meira í sveitarfélaginu á næstu misserum.“

Þeir vísa jafnframt til þess að starfsfólk Reykjanesbæjar hafi staðið sig mjög vel, einkum félagsþjónustan, en álagið hafi verið gríðarlegt á félagsþjónustu sveitarfélagsins.

Þá vil ég spyrja hv. þingmann, sem sagði hér áðan að það væri úlfúð í samfélaginu yfir þessu frumvarpi: Telur hv. þingmaður að það sé úlfúð yfir þessu frumvarpi í Reykjanesbæ, að almennt sé fólk í Reykjanesbæ á móti þessu frumvarpi, að almennt sé félagsþjónustan í Reykjanesbæ á móti þessu frumvarpi þegar þeir tala hér um að það sé nauðsynlegt að fækka flóttafólki? Vegna þess að þetta frumvarp er skref í þá átt að gera þetta skilvirkara og t.d. vill flokkur hv. þingmanns fella út 6. gr., sem er mikilvæg grein til að sjá til þess að það verði skilvirkara og við getum „kontrólað“ þá sem koma til landsins. Er hv. þingmaður á þeirri skoðun enn þá að það ríki úlfúð í Reykjanesbæ um að taka á þessum málum með þeim hætti að við getum tekið á móti fólki, að við ráðum við það?