Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[13:08]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þegar ég sagði að það ríkti úlfúð í samfélaginu — Reykjanesbær er bara hluti af samfélaginu, ekki nema 20.000 manns af 370.000 eða 380.000 manns sem hér búa. Vissulega hefur þetta skapað vandamál á tilteknu svæði í Reykjanesbæ sem heitir Ásbrú vegna þess að Útlendingastofnun tók þá afstöðu að hrúga fólki inn í tómar blokkir sem þar voru. Það eru þeir erfiðleikar sem við vorum að glíma við sem sveitarfélag og það er eitthvað sem þarf að bæta. Við lögum ástandið ef við tökum okkur til og berum sameiginlega ábyrgð á þessu sem samfélag, ekki bara að Reykjanesbær eigi að sjá um þetta. Að tala um að það hafi komið 500 manns til landsins; hvað voru margir af þeim sem komu frá Úkraínu? Hvað voru margir af þeim sem komu frá Venesúela, sem var sjálfsagt að kæmu til landsins? Á þá að hrekja hina í burtu? Á að reka fólk frá Írak, Íran eða Afganistan í burtu? Ætlum við ekki að reyna að standa í lappirnar og hjálpa þessu fólki?