Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[13:11]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Það er ítrekað búið að biðja ráðherra um að mæta hingað. Að sjálfsögðu ætti ráðherrann náttúrlega að mæta fyrir nefndina og svara beinum fyrirspurnum nefndarmanna í miklu gagnvirkara umhverfi heldur en gengur og gerist hér í ræðustól Alþingis. En fyrst þetta er möguleikinn sem við höfum þá er það að sjálfsögðu bara hingað sem ráðherra þarf að mæta. Orðin sem við fengum frá forseta, t.d. í gær um þessa beiðni, voru að ráðherra vissi af þessari beiðni, það hafi verið búið að láta hann vita. Svo svarar hann ekkert, hann svarar ekki einu sinni: Nei, ég ætla ekki að mæta.

Er það ekki undarlegt að ráðherra segi bara: Já, ég veit af beiðninni. Svo ætlar hann bara að bora í nefið, og gera hvað? Ekkert, láta okkur ekki einu sinni vita hvort hann ætli að mæta eða ekki. Ef hann mætir síðan allt í einu þá eru kannski einhverjir akkúrat ekki viðstaddir því að það er ýmislegt annað sem þarf að sinna stundum, svona í og með, sérstaklega þegar þingfundir eru langir. (Forseti hringir.) Lágmarkskurteisi ráðherra væri alla vega að segja nei ef hann ætlar ekki að koma.