Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[13:13]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil taka undir þessa kröfu um að hæstv. ráðherrar og helst fleiri þingmenn meiri hlutans komi hingað og taki þátt í þessari umræðu. Eins og ég nefndi áðan hef ég fengið ítrekaðar staðfestingar á því í samtölum við kollega mína hérna á göngunum að fólk geri sér raunverulega ekki grein fyrir því hvað er verið að afgreiða. Það kom líka glöggt fram í svörum hæstv. mennta- og barnamálaráðherra hérna áðan við fyrirspurn hv. þm. Lenyu Rúnar Taha Karim, þar sem hún spurði hæstv. ráðherra hvað honum fyndist um það ákvæði laganna sem beinlínis brýtur á réttindum barna og gerir það að verkum að athafnir annarra valda þeim miklum hagsmunaskerðingum, það var ekki að heyra á svari hæstv. ráðherra að hann hafi hugmynd um þetta ákvæði.

Ég hef einlægar áhyggjur af því að hv. þingmenn meiri hlutans hér á þingi og hæstv. ráðherrar geri sér raunverulega ekki fulla grein fyrir hvað er verið að afgreiða hér. Ég grátbið því þingmenn meiri hlutans og hæstv. ráðherra um að koma hingað, veita okkur áheyrn, hlusta á skýringar okkar á þessu frumvarpi, (Forseti hringir.) lýsingar, útskýringar á mannamáli og taka þátt í þessu samtali með okkur. Eruð þið í alvörunni sammála þessu?