Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[13:18]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Eins og ég hef er búin að lýsa yfir ítrekað hef ég miklar áhyggjur af því að hv. þingmenn geri sér ekki grein fyrir því hvað er verið að samþykkja með þessu frumvarpi til laga um útlendinga þar sem hér er ítrekað komið í fjölmiðla og annað, þó að hv. þingmenn meiri hlutans séu ekki mikið fyrir að taka þátt í umræðum hér í þingsal þá koma þeir fram á opinberum vettvangi, með yfirlýsingar um að þessu sé ætlað að bæta skilvirkni og bæta kerfið, straumlínulaga það og annað slíkt og að það sé ekkert verið að brjóta á mannréttindum þrátt fyrir að mannréttindastofnanir og -samtök hafi einmitt haldið hinu gagnstæða fram í sínum umsögnum. En á þær umsagnir er ekki hlustað af hálfu meiri hlutans.

Ég ætla því að halda áfram að reyna að útskýra á mannamáli út frá minni reynslu af þessum málaflokki þar sem ég tel mig geta séð í gegnum það sem kemur fram í greinargerð með þessu frumvarpi margt sem kannski blasir ekki við við lesturinn einan. Það er nefnilega svo að frumvarpið sprettur af þeim málum, einstökum málum einstaklinga, sem hafa komið upp þar sem Útlendingastofnun hefur tekið ákvarðanir sem úrskurðaðar eða dæmdar hafa verið ólögmætar. Það er ástæðan fyrir þessu frumvarpi, ekki nokkurs konar heildarhugsun eða stefnumótun eða annað og mun hvorki stemma stigu við komu flóttafólks hingað til lands né með öðrum hætti gera kerfið skilvirkara nema með því að brjóta verulega alvarlega gegn réttindum flóttafólks, t.d. til að leita réttar síns.

Ég er hins vegar hérna í óða önn að fjalla um 6. gr. frumvarpsins sem er ákvæði sem er einna mest gagnrýnt varðandi sviptingu þjónustu að 30 dögum liðnum eftir lokaniðurstöðu á stjórnsýslustigi. Um þessa grein komu fjölmargar umsagnir og mannréttindasamtök og ýmsir aðilar, Samband íslenskra sveitarfélaga og aðrir aðilar, hafa gríðarlegar áhyggjur af þessu ákvæði. Það virðist vera mjög óúthugsað, það er ekki búið að hugsa neitt til enda hvaða áhrif það hefur á samfélagið að fjölga heimilislausu fólki hérna. Einu svörin sem fást við því hvað á að gera ef fólk fer ekki að lokinni þjónustusviptingu er: Það á bara að fara. Það er ekkert búið að hugsa þetta út. Það er ekki búið að hugsa þetta til enda. Hæstv. dómsmálaráðherra gat ekki sjálfur svarað því hvaða afleiðingar þetta muni hafa fyrir sveitarfélögin. Þingmenn meiri hlutans skiptast á að segja að það verði allt í lagi með fólk, það fái bara einhverja aðra þjónustu, eða taka undir með hæstv. dómsmálaráðherra og segja: Fólk á bara einfaldlega að fara.

Þá vil ég mótmæla því sem kom fram í máli hv. þm. Birgis Þórarinssonar hérna rétt áðan í andsvörum hans við ræðu hv. þm. Guðbrands Einarssonar, þegar hann talar um að það sé tilgangur þessa ákvæðis, þessarar þjónustusviptingar, að fæla fólk frá því að koma hingað. Ég vil hvetja fólk sem heldur þetta í eina sekúndu til að lesa skýrslu Rauða krossins um aðstæður fólks sem er hérna utan kerfis eins og staðan er í dag með alla þá frábæru þjónustu sem það á rétt á samkvæmt lögum um útlendinga, eins og þau eru í dag. Þar sést glöggt að þetta fólk er í mikilli neyð. Það upplifir sig innilokað, upplifir sig einangrað, upplifir sig réttlaust, vonlaust og án framtíðar. Hvers lags segull er það? verð ég að spyrja hv. þm. Birgi Þórarinsson. Hvaða þjónusta er það hérna sem umsækjendur um alþjóðlega vernd fá, hvort sem þeir hafa fengið synjun eða ekki, sem að mati hv. þingmanns virkar sem svona ægilega mikið aðdráttarafl fyrir fólk sem kemur hingað? Nei, ég get alveg staðfest að það er ekkert slíkt í gangi og eins og ég hef nefnt þá er ýmislegt sem bendir til þess að ákveðnir hópar, alla vega, einstaklingar í ákveðnum aðstæðum, muni raunverulega að fá betri þjónustu ef þeir verða sviptir þjónustu Útlendingastofnunar í kjölfar synjunar vegna þess að sú þjónusta er af svo skornum skammti.

Ég er búin að rekja í nokkrum ræðum mínum löggjöf og framkvæmd á hinum Norðurlöndunum vegna þess að því er haldið fram að það sé verið að samræma okkar framkvæmd og löggjöf við það sem er annars staðar á Norðurlöndunum, m.a. í þessu ákvæði. Það er einfaldlega rangt. Jafnvel í Danmörku þar sem einna harðast er gengið fram í mjög strangri, hvað eigum við að segja, stefnu í flóttamannamálum sem býður fólk ekki mjög velkomið, dettur Dönum ekki einu sinni í hug að svipta fólk allri þjónustu; fæði, húsnæði og heilbrigðisþjónustu, vegna þess, eins og þingmenn danska þingsins orðuðu það í heimsókn okkar allsherjar- og menntamálanefndar þangað fyrir stuttu: Við viljum ekki hafa fólk búandi hérna undir brúm. Það er verið að hugsa um samfélagið, ekki bara um mannréttindi þessara einstaklinga. (Forseti hringir.) Því miður virðist þeim ekki alveg nógu annt um þau alltaf. En það er fleira sem kemur inn í myndina og það er bara ekkert búið að hugsa út í það í þessu frumvarpi, (Forseti hringir.) bara ekki neitt. Ég óska eftir því að fá að vera sett aftur á mælendaskrá.