153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

skýrsla GREVIO um Ísland.

[13:29]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Frú forseti. Í nóvember síðastliðnum kom út ný skýrsla GREVIO-nefndarinnar svokölluðu sem hefur það hlutverk að meta árangur stjórnvalda í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi. Skýrslan er til komin vegna aðildar Íslands að Istanbúl-samningnum svokallaða um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi og fjallar um það hvernig Ísland uppfyllir skyldur sínar samkvæmt samningnum. Í stuttu máli er niðurstaðan nokkuð alvarleg fyrir Ísland þótt inn á milli séu ýmsir ljósir punktar. Kerfið hér á landi er m.a. ekki nægilega í stakk búið til að takast á við margþætta samfélagslega mismunun sem t.d. konur af erlendum uppruna, konur með fötlun eða konur með vímuefnavanda glíma við. Telur nefndin m.a. að íslenska ríkið gefi ekki nægan gaum að brotum á borð við umsáturseinelti, heiðursglæpi, þvingaðar ófrjósemisaðgerðir, þvinguð, hjónabönd og kynfæralimlestingar, en það er ofbeldi sem líklegt er að konur af erlendum uppruna verði fyrir.

Í skýrslunni kemur fram að miðað við þann fjölda tilkynninga sem berast árlega um heimilisofbeldi bendi önnur gögn til þess að úrræði til þess að fjarlæga gerenda séu ekki nýtt nægjanlega, þ.e. lögregluúrræði sem geta gagnast bæði konum sem eru þolendur ofbeldis og börnum. Þar að auki nýti yfirvöld ekki nægilega oft úrræði á borð við nálgunarbann gegn gerendum ofbeldis til að tryggja öryggi þolenda.

Í skýrslunni er sérstaklega vikið að forsjármálum þar sem heimilisofbeldi hefur komið við sögu. Leggur nefndin áherslu á það að barn verði vitni að ofbeldi sé ofbeldi gegn barninu. Taldi nefndin jafnframt ótækt að foreldri sem er þolandi ofbeldis sé skyldugt til að leita sátta við gerandann undir rekstri mála er varðar forsjá. Áréttar nefndin að ofbeldi í nánu sambandi bendi til valdaójafnvægis og að kona sem er þolandi í slíku sambandi þurfi sérstakan stuðning í samningaviðræðum um forsjá og umgengni. Því er ótækt að þolendur séu jafnvel skyldaðir til að taka þátt í stjórnsýslulegu ferli um umsjá barna sinna með geranda sínum.

Þessi skýrsla sýnir okkur svart á hvítu að kerfið okkar tekur ekki nógu vel utan um þolendur ofbeldis þegar kemur m.a. að forsjármálum, þar á meðal börn sem verða fyrir ofbeldi eða vitni að því. Þessi mál hafa vissulega verið í umræðunni en það liggur ljóst fyrir að brýn nauðsyn er á breytingum í framkvæmd forsjár- og umgengnismála þegar um ofbeldi í nánu sambandi er að ræða. 31. gr. Istanbúl-samningsins er skýr um það að heimilisofbeldi skuli tekið inn í myndina við töku ákvarðana í forsjár- og umgengnismálum.

Nefndin fjallaði einnig um fjölda tilkynntra kynferðisbrota en fyrirliggjandi gögn benda til þess að rannsókn kynferðisbrota sé felld niður í of mörgum tilvikum. Það er umræða sem baráttufólk fyrir réttindum þolenda hefur haldið uppi undanfarið, en enn sem komið er hafa stjórnvöld litlum árangri náð í að fjölga brotum sem ná frá kæru yfir í ákæru og að endingu sakfellingu.

Þá taldi nefndin brýna þörf á að koma á fót neyðarsíma skipaðan fagfólki sem konur geta hringt í allan sólarhringinn og að bæta þurfi verulega aðgengi að aðstoð fyrir þolendur á landsbyggðinni.

Að mati nefndarinnar er fjármögnun frjálsra félagasamtaka sem veita ráðgjöf og sálfræðiaðstoð ekki nægilega tryggð til lengri tíma og úr því þurfi stjórnvöld að bæta. Nefndin taldi jafnframt skort á samræmdri gagnaöflun og samhæfingu þjónustuaðila, sér í lagi lögreglu, ákæruvalds, dómsvalds og heilbrigðisþjónustu, líkt og Istanbúl-samningurinn kveður á um. Er nauðsynlegt að komið verði á fót stofnun sem hefur yfirsýn yfir þennan málaflokk til að tryggja að Ísland uppfylli skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum.

Í ljósi alls þessa eru þær spurningar sem ég legg fyrir hæstv. forsætisráðherra, sem er ráðherra jafnréttismála og mannréttindamála, eftirfarandi:

Hvaða vinna er í gangi hjá ríkisstjórninni við að bæta úr þeim vanefndum Íslands á Istanbúl-samningnum sem fram koma í skýrslum GREVIO? Hefur ríkisstjórnin í hyggju að gera breytingar á framkvæmd, leggja til breytingar á lögum eða með öðrum hætti bregðast við þeirri gagnrýni sem fram kemur í skýrslunni á meðferð forsjár- og umgengnismála hér á landi og þá hvernig? Til hvaða aðgerða hefur ríkisstjórnin gripið eða hyggst grípa til að tryggja kerfisbundna, skyldubundna þjálfun í upphafi starfs fyrir allt fagfólk sem kemur að málum þolenda ofbeldis?