Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[14:36]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hvað getum við gert til að fleiri sveitarfélög taki þátt í þessu stóra samfélagsverkefni sem okkur ber skylda til að takast á við? Hér nefndi hv. þingmaður sveitarfélög í kringum Reykjavík. Reykjavík er að bjóða upp á bestu félagslegu þjónustuna. Mörg þessara sveitarfélaga eru að bjóða upp á litla sem enga félagsþjónustu. Reykjanesbær hefur þurfti að bjóða upp á verulega mikla félagslega þjónustu vegna þess að það má kannski segja að það sé sveitarfélagið í miðjunni á Suðurnesjum eins og Reykjavík er í miðjunni hér á Reykjavíkursvæðinu. Það er auðvitað bara umhugsunarefni hvers vegna þessi sterku sveitarfélög í kringum Reykjavík taka ekki frekari þátt í þessu. Af hverju er það þannig í Danmörku að sveitarfélög þar telja þetta bara vera skyldu sína? Af hverju eru bara einstaka sveitarfélög á Íslandi að gera þetta? Þarf lagaumgjörð til að þetta verði að veruleika, að öll sveitarfélög taki þátt í þessu? Ég veit það ekki.