Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[14:51]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Ég ætla að taka upp þráðinn þar sem ég stoppaði í nótt. Fyrir ykkur sem ekki voruð með okkur í gærkvöldi var ég að fjalla um þau ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu sem hafa áhrif og í sumum tilfellum stangast á við það frumvarp sem hér er til umræðu. Mannréttindasáttmáli Evrópu var gerður árið 1950 af þeim ríkjum sem eru hluti af Evrópuráðinu. Ísland er einmitt aðili að Evrópuráðinu og þann 30. maí árið 1994 var mannréttindasáttmálinn löggiltur inn í íslensk lög ásamt fjölda samningsviðauka. Ég var búinn að lesa hluti úr samningnum sjálfum og samningsviðaukanum en samningsviðaukinn sem ég ætla að fjalla um núna er samningsviðauki nr. 7, sem er frá 22. nóvember 1984. Rétt eins og samningurinn sjálfur hefur hann lagagildi hér á landi. Þessi samningsviðauki fjallar eins og aðrir um verndun mannréttinda og mannfrelsis, en 1. gr. þessa samningsviðauka fjallar einmitt um réttarfarsreglur um brottvísun útlendinga. Þar stendur, með leyfi forseta, í 1. gr.:

„Útlendingi, sem löglega er búsettur á landsvæði ríkis, skal ekki vísað þaðan nema eftir ákvörðun sem tekin hefur verið í samræmi við lög, og skal honum heimilt:

a. að bera fram ástæður gegn brottvísun sinni,

b. að fá mál sitt tekið upp að nýju, og

c. að fá erindi sitt flutt í þessu skyni fyrir réttu stjórnvaldi eða manni eða mönnum sem það stjórnvald tilnefnir.“

2. mgr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Heimilt er að vísa útlendingi brott áður en hann hefur neytt réttinda sinna skv. a-, b- og c-lið 1. mgr. þessarar greinar þegar slík brottvísun er nauðsynleg vegna allsherjarreglu eða á grundvelli þjóðaröryggis.“

Með öðrum orðum hafa útlendingar rétt til þess að bera fram ástæður gegn brottvísuninni, að málið sé tekið upp að nýju og að fá að flytja þetta erindi sitt fyrir réttu stjórnvaldi nema auðvitað þjóðaröryggi eða eitthvað slíkt sé ástæða fyrir því að þetta eigi ekki að gilda. Hingað til hef ég alla vega ekki séð neitt í greinargerð með frumvarpinu um að hér sé um þjóðaröryggismál að ræða og sit ég reyndar í utanríkismálanefnd þar sem þjóðaröryggismál falla undir. Þetta hefur heldur ekki verið nefnt þar sem þjóðaröryggismál, þvert á móti erum við stolt af því að vera að taka á móti t.d. hælisleitendum frá Úkraínu.

Ég fæ ekki séð annað þegar þessi grein er skoðuð en að það séu atriði í frumvarpinu, t.d. um neitun á að taka mál upp að nýju, neitun á því að gefa fólki möguleika á að flytja erindi sitt, sem þarf samkvæmt þessum samningsviðauka og þessari grein að veita. Það væri gaman að hafa hér einhverja úr allsherjar- og menntamálanefnd, sér í lagi úr stjórnarflokkunum, sem geta leiðbeint mér um af hverju þetta stangist ekki á.

Frú forseti. Ég hef hug á að fara í gegnum fleiri atriði og óska því eftir að vera bætt á mælendaskrá.