Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[15:07]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Fyrir þá sem horfa og fylgjast hér með þá hef ég verið að fara yfir þá alþjóðlegu samninga og sáttmála sem gilda þegar kemur að þeim málefnum sem verið er að fjalla um í þessu frumvarpi. Ég fór fyrst yfir mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, en hún er grunnurinn að öllum þessum sáttmálum og er vísað til hennar m.a. í mannréttindasáttmála Evrópu en líka í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sem mig langar að setja smá áherslu á í þessari ræðu og einhverjum af næstu ræðum.

Samningur sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, eða barnasáttmálinn eins og hann er oftast kallaður, var gerður að lögum hér á Íslandi í þann 2. nóvember árið 1992, með lögum nr. 18/1992. Og fyrir þá sem vilja fylgjast með heima þá er ágæt vefsíða sem er haldið úti sem heitir barnasáttmáli.is, þar sem sáttmálinn sjálfur er rakinn, bæði í fullum texta, eins og það sem ég er með hér fyrir fram mig, en líka í styttri og auðveldari útgáfu. Þó svo að þessi sáttmáli hafi verið gerður þá byggir hann ekki bara á mannréttindayfirlýsingunni heldur segir í inngangi samningsins, með leyfi forseta:

„Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum,“ — síðan kemur heilmikill texti og svo segir áfram, með leyfi forseta — „sem minnast þess að þeirrar nauðsynjar að barninu sé veitt sérstök vernd hefur verið getið í Genfaryfirlýsingu um réttindi barnsins frá 1924 og í yfirlýsingu um réttindi barnsins sem samþykkt var á allsherjarþinginu hinn 20. nóvember 1959, og hefur hún verið viðurkennd í mannréttindayfirlýsingunni, í alþjóðasamningnum um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi (sérstaklega 23. og 24. gr.), í alþjóðasamningnum um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi (sérstaklega 10. gr.), og í samþykktum og ýmsum löggerningum sérstofnana og alþjóðastofnana sem láta sig velferð barna varða …“

Já, þetta er ekki bara einhver samningur sem var gerður einu sinni heldur byggir hann á mörgum öðrum samningum, þar á meðal Genfaryfirlýsingunni. En ég ætla að fá að halda áfram, með leyfi forseta, að lesa upp úr innganginum en þar stendur:

„Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum, […] sem hafa í huga að barn þarfnist þess „að því sé látin í té sérstök vernd og umönnun þar sem það hafi ekki tekið út líkamlegan og andlegan þroska, þar á meðal viðeigandi lögvernd, jafnt fyrir sem eftir fæðingu“, eins og segir í yfirlýsingunni um réttindi barnsins, sem minnast ákvæða yfirlýsingarinnar um félagslegar og lagalegar meginreglur um vernd barna og velferð með sérstakri hliðsjón af fóstri barna og ættleiðingu innan lands og milli ríkja, almennra lágmarksreglna Sameinuðu þjóðanna um meðferð afbrotamála ungmenna (Beijing-reglnanna), og yfirlýsingarinnar um vernd kvenna og barna er neyð ríkir eða ófriður geisar, sem gera sér grein fyrir að í öllum löndum heims eru börn sem búa við sérstaklega erfiðar aðstæður, og að þau þarfnist sérstakrar athygli …“

Já, frú forseti. Þetta byggir á mikilli reynslu og mikilli þekkingu á því að börn þurfi sérstaka vernd og við höfum innleitt þá vernd inn í íslensk lög.

— Ég sé að tími minn er á þrotum, frú forseti. En mig langar að halda áfram að fjalla um þennan barnasáttmála í næstu ræðu og óska því eftir því að vera bætt aftur á mælendaskrá.