Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[15:17]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Ég hef aðeins verið að fjalla um þann ómöguleika sem blasir við umsækjendum um alþjóðlega vernd sem eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu og reyna af veikum mætti að sýna fram á þá stöðu sína þegar kerfið gerir allt sem það getur til að neita að viðurkenna þessa sérstaklega viðkvæmu stöðu. Ég hef verið að fara yfir umsögn Rauða krossins þar sem kemur fram að Rauði krossinn hafi ítrekað gert alvarlegar athugasemdir við málsmeðferð Útlendingastofnunar þar sem hún beinlínis kemur í veg fyrir að rannsóknarskyldu stjórnvaldsins sé fullnægt og að viðkomandi flóttamaður geti sýnt fram á að hann eigi að njóta stöðu sem flóttamaður í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Ég hef verið að ræða þetta í samhengi við 6. gr. þessa frumvarps þar sem til stendur að svipta fólk framfærslu 30 dögum eftir endanlega ákvörðun kærunefndar útlendingamála um að viðkomandi einstaklingur skuli yfirgefa landið og fái ekki efnismeðferð og hef verið að fjalla um umsögn Rauða krossins í því samhengi. Þar er einmitt talað um hvað þetta eru mikil grundvallarréttindi sem verið er að taka af fólki með 6. gr. Ég var komin að kaflanum sem snýr að þessum svokölluðu undantekningum, sem eiga að heita, á þessari þjónustusviptingu. Það mætti halda að þetta væri ansi ríkulegur listi af undantekningum en þegar framkvæmdin er skoðuð, þegar viðmótið innan Útlendingastofnunar og hjá kærunefndinni er skoðað af hálfu þeirra sem hafa sinnt réttindagæslu flóttafólks hvað lengst og hvað oftast og hafa hvað mestu reynslu af þessu á landinu, þá hljótum við að sjá að þetta — og þetta er það sem ég mun vitna í — að þessar undantekningar munu ekki duga til þess að grípa alla þá sem mega ekki við því að lenda á götunni algerlega án framfærslu. Það mætti halda miðað við upptalninguna að það væru eiginlega bara fullorðnir karlar og fullorðnar konur sem eiga engin börn en það er ekki svo. Hér hefst lesturinn á bls. 7 í umsögn Rauða krossins um frumvarpið, með leyfi forseta:

„Í 6. gr. frumvarpsins segir að ekki sé heimilt að fella niður réttindi alvarlega veikra einstaklinga og fatlaðra einstaklinga með langvarandi stuðningsþarfir. Í athugasemdum við frumvarpsgreinina segir að með alvarlegum veikindum sé átt við þá einstaklinga sem ekki séu fyllilega færir um að sjá um sig sjálfir, hvort sem er vegna andlegra eða líkamlegra veikinda, og velferð þeirra yrði alvarlega ógnað ef réttindi þeirra yrðu niður felld.“

Ég vil bæta því við að ég held að velferð hvers sem er sé alvarlega ógnað þegar einstaklingur má ekki vinna fyrir sér, hefur ekki húsnæði og hefur engan pening til þess að framfleyta sér og engan mat. Ég held bara að velferð allra sé ógnað við þær aðstæður, ég vil halda því til haga, sér í lagi í febrúarmánuði, janúarmánuði, nóvembermánuði, desembermánuði, októbermánuði — ég meina, við búum á Íslandi, virðulegi forseti. Það er engum greiði gerður við að þurfa að búa á götunni og velferð allra er ógnað við að vera hent á götuna án aðgengis að heilbrigðisþjónustu, án þess að geta unnið fyrir sér og án nokkurra fjármuna til að sjá fyrir sér. En það á sem sagt að gera undantekningar fyrir fólk í sérstaklega viðkvæmri stöðu og ég er hérna að fara yfir hvernig þetta mun samt sem áður ekki ná nógu vel utan um fólkið sem við viljum þó vernda frá því að lenda á götunni.

Svo ég haldi áfram, með leyfi forseta:

,,Með fötluðum einstaklingi með langvarandi stuðningsþarfir sé átt við þá sem hafi þörf fyrir þjónustu og/eða stuðning sem sé meiri eða sérhæfðari en svo að þörfinni verði fullnægt innan almennrar þjónustu.“ — fólk á ekki að fá neina almannaþjónustu hvort sem er, þannig að ég veit ekki alveg af hverju það skiptir máli — „Rauði krossinn hefur um margra ára skeið gert margháttaðar og alvarlegar athugasemdir við mat Útlendingastofnunar á því hvort umsækjendur um alþjóðlega vernd teljist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu vegna veikinda eða fötlunar en“ — og hér er það sem ég hef verið að segja — „svo virðist sem verulega þröng skilyrði þurfi að uppfylla svo umsækjendur geti talist í sérstaklega viðkvæmri stöðu.“

Síðan er farið í skilgreininguna á sérstaklega viðkvæmri stöðu og ég held að það sé mjög mikilvægt að fara ítarlega í gegnum hana vegna þess að það er með miklum ólíkindum hversu erfitt það hefur reynst umsækjendum um alþjóðlega vernd, sem mjög oft falla undir þessa skilgreiningu, að fá að færa sönnur á það, af því að lögum samkvæmt á Útlendingastofnun að færa sönnur á það en hún neitar að gera það að eigin frumkvæði og hún neitar að gefa flóttafólki tíma og rými til að sanna það sjálft.

Það er þessi ómöguleiki, virðulegur forseti, sem ég hef verið að reyna að sýna fram á að þetta kerfi búi til. (Forseti hringir.) Það er þetta sem gerir það að svo miklu kjaftæði sem fólk er að segja; að við eigum bara að vera að hjálpa fólki sem er í neyð. (Forseti hringir.) Okkar kerfi vinnur gagngert gegn því að hjálpa fólki í neyð.