Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[15:39]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Fyrir þá sem voru að kveikja á viðtækjunum hef ég verið að fjalla um barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og það hvernig hann tengist þessu frumvarpi sem verið er að ræða. Ég talaði um það í síðustu ræðu hvernig það væri alveg á hreinu að sáttmálinn nær yfir börn sem koma til Íslands og eru á flótta, ekki bara yfir börn sem hafa búið á Íslandi. Ég fjallaði líka um 2. mgr. 2. gr. um það að ekki megi mismuna barni eða refsa vegna stöðu eða athafna foreldra þess. En 1. mgr. 3. gr. talar beint til okkar, bæði okkur á þingi og annarra stjórnvalda, þar með talið Útlendingastofnunar, en þar segir, með leyfi forseta:

„Það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir á vegum hins opinbera eða einkaaðila, dómstólar, stjórnvöld eða löggjafarstofnanir gera ráðstafanir sem varða börn.“

Frú forseti. Það er hreint og klárt í lögum á Íslandi og í þessum alþjóðlega barnasáttmála að það sem barni er fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang. Það þýðir að það er forgangsatriði hjá okkur sem löggjafarsamkomu að tryggja að löggjöfin sem við skrifum og breytum og vinnum á Alþingi setji ávallt börn í forgang, það sem er best fyrir börnin.

Við erum einn þingmaður frá hverjum flokki hér á þingi sem höfum tekið þá ákvörðun að vera talsmenn barna. Það er hlutverk sem hv. þingmenn taka að sér til þess að tryggja nákvæmlega það sem stendur í þessari grein, að við höfum ávallt það í forgangi sem barninu er fyrir bestu. Þess vegna m.a. stend ég hér og fjalla um barnasáttmálann og þessi lög, vegna þess að það er ekki í þessum lögum verið að setja það sem barninu er fyrir bestu í forgang.

2. mgr. 3. gr. heldur áfram og í henni stendur, með leyfi forseta:

„Með hliðsjón af réttindum og skyldum foreldra eða lögráðamanna, eða annarra sem bera ábyrgð að lögum á börnum, skuldbinda aðildarríki sig til að tryggja börnum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst, og skulu þau í því skyni gera allar nauðsynlegar ráðstafanir á sviði löggjafar og stjórnsýslu.“

Við þurfum alltaf að tryggja börnum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst, m.a. börnum sem koma hingað fylgdarlaus.

Áður en tími minn klárast, frú forseti, langar mig að lesa 4. gr.:

„Aðildarríki skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir á sviði löggjafar og stjórnsýslu, svo og á öðrum vettvangi, til að réttindi þau, sem viðurkennd eru í samningi þessum, komi til framkvæmda. Hvað efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi snertir skulu aðildarríki gera slíkar ráðstafanir að því marki sem þau framast hafa bolmagn til, og með alþjóðlegri samvinnu þar sem þörf krefur.“ (Forseti hringir.)

Frú forseti. Við eigum að gera allar viðeigandi ráðstafanir (Forseti hringir.) til að tryggja þessi réttindi.

Ég heyri að tími minn er á þrotum, frú forseti, (Forseti hringir.) og ég er rétt að byrja á barnasáttmálanum. (Forseti hringir.) Ég óska eftir því að komast aftur á mælendaskrá svo fljótt sem auðið er.

(Forseti (JSkúl): Forseti minnir hv. þingmenn á að ræðutíminn er takmarkaður og ef hv. þingmönnum gefst ekki tími til að óska eftir að fara í ræðu innan tímamarka er gott að gera það með öðrum hætti.)