Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[15:50]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Forseti. Áfram held ég með fólkið í umborinni dvöl, fólk sem hefur fengið endanlega synjun umsóknar um alþjóðlega vernd en íslenska ríkið getur einhverra hluta vegna ekki komið því úr landi, vegna þess að upprunaríkið tekur ekki við því af einhverjum ástæðum. Þessi 64 manna hópur sem nýtur takmarkaðra réttinda býr í algjöru limbói. Eins og ég sagði eru gulrætur til staðar í gegnum Alþjóðlegu fólksflutningastofnunina, sem International Organization for Migration heitir á íslensku, sem felast í fjárhagslegri aðstoð við að komast heim og aðlaga sig aftur að heimaríkinu. Þetta er eitthvað sem fólk sem hefur fengið synjun um umsókn um alþjóðlega vernd nýtir sér oft. Segjum t.d. að fólk sé að flýja stríðsástand sem er um garð gengið eða að það sé að flýja pólitískar ofsóknir og það verður umturnun í heimaríkinu. Hættan sem fólk er að flýja getur horfið og þess vegna er gott að þetta kerfi sé til staðar til að hjálpa fólki fjárhagslega að komast aftur til síns heima. En þessir einstaklingar sem hér um ræðir standa frammi fyrir því að þau sem gætu mögulega hugsað sér að nýta sér svona heimferðarstyrk hafa rekið sig á að það gengur ekki eftir þar sem stofnunin metur gjarnan aðstæður í þeim ríkjum það hættulegar að ekki sé hægt að vísa fólki þangað aftur. Við erum, eins og ég talaði um áðan, m.a. að tala um nokkurn hóp einstaklinga frá Írak auk annarra ríkja. Síðan getur fólkið sjálft bara metið aðstæðurnar þannig að það sé ekki réttlætanlegt fyrir það að halda heim á leið. Því þykir ástandið bara enn vera of eldfimt til að það geti lifað þar öruggu og eðlilegu lífi.

Þetta eru gulræturnar sem ríkið býður þessu fólki. Síðan er það að vandinn sem ríkið mögulega lítur á að það standi frammi fyrir í þessu er að það er ekki hægt að þvinga brottför þessara einstaklinga. Það er ekki hægt að flytja þau úr landi með lögregluvaldi til ríkja sem t.d. Ísland er ekki með stjórnmálasamband við eða til ríkja sem viðurkenna þau kannski ekki sem ríkisborgara eða hvað það er. Ýmsar ástæður geta verið fyrir því og þá þarf að fá fólkið til að fara á tveimur jafnfljótum á eigin forsendum. Það sem hefur verið gert, sem er svona með því ómannúðlegra í kerfinu hér, er að svipta það þjónustu. Það er það sem okkur þykir mörgum ein ljótasta greinin í þessu frumvarpi, sem þó er að mestu leyti fullt af greinum sem eru ómannúðlegar. 6. gr., um niðurfellingu þjónustu og réttinda, snýst einmitt um fólk sem hefur fengið endanlega synjun umsóknar um alþjóðlega vernd og að það sé hægt að svipta þau grundvallarþjónustu og -framfærslu. Það er sem sagt lagt til að búa til nýjan hóp fátæks heimilislauss fólks á Íslandi sem er þetta fólk sem hefur fengið synjun um alþjóðlega vernd og þannig er það fyrir fólkið sem ekki hefur þegið fjárstuðninginn við að fara til heimalandsins að það er reynt að svelta það til hlýðni, eins og við höfum orðað það.

Þetta nær ekki nokkurri átt, frú forseti, að fólk í viðkvæmri stöðu þurfi að standa frammi fyrir þeim valkosti að fara heim til ríkisins sem það þarf að flýja af ótta við, ja, — hvað sem það er að flýja, eða að það eigi að svelta á götum Reykjavíkur um miðjan vetur eins og reynt var með hóp palestínskra ungra karlmanna sem var varpað út á götu í fyrra. (Forseti hringir.) Þarna var ég aðeins byrjaður (Forseti hringir.) að ræða svipuna sem ríkið og meiri hlutinn vill beita á flóttafólk. (Forseti hringir.) Ég held því áfram í næstu ræðu.