Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[15:55]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Ég hef verið að fjalla um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem í stuttu máli er oftast kallaður barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna. Hann hefur verið löggildur hér á landi frá 2013 sem þýðir að þau ákvæði sem í honum eru eru lög á Íslandi. Ég næ ekki að fara í gegnum allan sáttmálann, enda yrðum við sennilega hér fram á vor ef ég gerði það við alla sáttmála, en ég ætla að fara í gegnum þær greinar sem tengjast þessu frumvarpi. Næsta grein sem mig langar að fara í, með leyfi forseta, er 7. gr. Hún er í tveimur málsgreinum og ætla ég að byrja á því að lesa þær báðar áður en ég fer í útskýringar. 1. mgr. hljómar svo, með leyfi forseta:

„Barn skal skráð þegar eftir fæðingu, og á það frá fæðingu rétt til nafns, rétt til að öðlast ríkisfang, og eftir því sem unnt er rétt til að þekkja foreldra sína og njóta umönnunar þeirra.“

Og 2. mgr:

„Aðildarríki skulu tryggja að réttindum þessum sé komið í framkvæmd í samræmi við lög sín og skuldbindingar í viðeigandi alþjóðasamningum á þessu sviði, einkum í þeim tilvikum þegar barn yrði ella ríkisfangslaust.“

Þarna er mikilvægt að hafa í huga gagnrýni sem kom nú í vikunni frá Rauða krossinum á það að sá hópur flóttamanna sem er hér á landi sem hefur verið neitað um hæli en er fastur hér á landi vegna þess að ekki er hægt að koma honum til síns heimalands af ýmsum ástæðum, að eignist þetta fólk börn hér á landi sé barnið að öllum líkindum ríkisfangslaust. Það brýtur í bága við 7. gr. þessara laga, eða barnasáttmálans, og mikilvægt að tekið sé á því og þannig tryggt að barnið fái ríkisfang. Jafnvel í því eina ríki í heiminum sem ekki hefur samþykkt þennan sáttmála er það þannig að börn sem fæðast í landinu, ef þau koma til landsins ,og þó að foreldrarnir hafi komið ólöglega, þá er þar í gildi svokölluð draumalöggjöf, eins og hún er kölluð, sem sérstaklega tekur á þessu. Börnin fá ákveðin réttindi þrátt fyrir að foreldrar þeirra hafi komið ólöglega til landsins.

Ég sé að tíminn líður hratt þannig að ég ætla að fara í 8. gr. og í henni stendur, í 1. og 2. mgr., með leyfi forseta:

„Aðildarríki skuldbinda sig til að virða rétt barns til að viðhalda því sem auðkennir það sem einstakling, þar með töldu ríkisfangi sínu, nafni og fjölskyldutengslum eins og viðurkennt er með lögum, án ólögmætra afskipta.

Sé barn ólöglega svipt einhverju eða öllu því sem auðkennir það sem einstakling skulu aðildarríkin veita viðeigandi aðstoð og vernd í því skyni að bæta úr því sem fyrst.“

Þarna eru ýmis réttindi nefnd sem m.a. ættu að tryggja að börn sem koma hingað til lands fylgdarlaus hafi möguleika á því að fá fjölskyldur sínar til landsins, svokölluð fjölskyldusameining. Einnig er þarna fjallað um að börnin eigi að fá ákveðin réttindi og ef þau eru svipt einhverjum af þeim réttindum verði lönd að laga það.

Frú forseti. Ég sé að tími minn er á þrotum en ég hef enn nokkra kafla sem ég á eftir að lesa, þannig að ef frú forseti gæti bætt mér á mælendaskrá.