Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:06]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Ég held að það hafi verið fyrir vaktaskipti á forsetastóli að ég ræddi síðast skýrslu Rauða krossins á Íslandi um fólk í svokallaðri umborinni dvöl, þ.e. umsækjendur um alþjóðlega vernd sem hafa fengið endanlega synjun á Íslandi en geta ekki snúið til baka til heimalands síns af einhverjum ástæðum og íslenska ríkið er ekki í þeirri stöðu að geta þvingað þau til landsins. Það er ekki í boði að beita þvingaðri brottvísun á þessa einstaklinga, mögulega vegna þess að það er ekki stjórnmálasamband við móttökuríkið eins og í tilviki írasks flóttafólks sem er hér innlyksa.

Ég var búinn að fara yfir verkfærin sem ríkið hefur beitt til að hvetja fólk til að fara sjálfviljugt án beinnar íhlutunar ríkisins af landinu af því þótt það sé ekki samband milli Íslands og móttökuríkisins þá geti einstaklingarnir nú sjálfir á tveimur jafnfljótum komið sér þangað og geti jafnvel notið gulrótarinnar sem er fjárstuðningur frá Alþjóðlegu fólksflutningastofnuninni, IOM. Reyndin er hins vegar sú að frá árinu 2017 hafa einir 64 einstaklingar lent í þessari stöðu og ýmist ekki treyst sér sjálf til að þiggja þessa gulrót vegna þess að þau meti ástandið í heimalandinu of hættulegt fyrir sig eða IOM meti ástandið það hættulegt að það væri ekki á það hættandi að koma þeim til þess ríkis.

Vegna þess að þessi gulrót hefur ekki virkað þá á að bæta við kerfið dálítið öflugri svipu. Það á að bæta því við að geta bókstaflega svelt fólk til hlýðni vegna þess að þetta er hópur sem myndi væntanlega falla undir niðurfellingu þjónustu og réttinda samkvæmt 6. gr. frumvarpsins sem við ræðum hér í dag. Þó að sú niðurfelling sé enn nokkuð óljós — við vitum ekki nákvæmlega hvaða skyldur yfirfærast t.d. á félagsþjónustu sveitarfélaga gagnvart einstaklingum sem 30 dögum eftir endanlega synjun umsóknar um alþjóðlega vernd missa þjónustu og réttindi af hálfu ríkisins — þá er þó staðan í dag sú að þessi hópur nýtur einhverra lágmarksréttinda. En það á að taka þau af honum þannig að húsnæðisleysi, það að hafa ekki aðgang að heilbrigðisþjónustu og annað setji fólk í rauninni í þá valþröng að þurfa að velja á milli þess að vera fátæk og heimilislaus á Íslandi eða að fara aftur heim til ríkisins sem þau eru að flýja.

En það er ýmislegt annað sem fylgir þessari stöðu. Það sem mér finnst eiginlega ótrúlegast að allsherjar- og menntamálanefnd hafi ekki gripið á lofti þegar þessi skýrsla barst henni 30. nóvember sl. er sú staðreynd að börn þessa fólks, börn fólks í umborinni dvöl, eru í rauninni ríkisfangslaus. Nú er bara mjög rík skylda á stjórnvöldum að berjast gegn ríkisfangsleysi og eitthvað sem Ísland hefur einsett sér, það er ekki langt síðan við lögfestum eða fullgiltum eða hvað það var samning Sameinuðu þjóðanna um baráttuna gegn ríkisfangsleysi, sem var dálítið seint samt. Hann er frá 1950, ef ég man rétt, en við gerðum þetta fyrir örfáum árum. Þá er þarna að verða til hópur barna sem, ofan á það að vera, eins og meiri hlutinn leggur til, fólk sem engra réttinda og engrar þjónustu nýtur, er ríkisfangslaus, þannig að framtíð þeirra er þeim mun óljósari og viðkvæmari.

Hér var ég rétt byrjaður að fara yfir þetta. Ég læt máli mínu lokið í bili.