Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:17]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Frú forseti. Ég ætla að halda áfram að fara í gegnum málsmeðferðarreglur stjórnvalda og reyna að útskýra á svolítið mannlegan en samt sem áður lögfræðilegan hátt hvernig lögfesting þessara ákvæða gæti mjög líklega farið gegn þeim reglum. Bara svona til að taka dæmi um réttmætar væntingar aðila máls er ein ákvörðun frá umboðsmanni Alþingis sem heitir breyting einkunnar, þetta er bara nákvæmlega dæmið sem ég var að taka. Það var þannig að einkunn nemanda var breytt úr 5 í 4 og umboðsmaður Alþingis tók fram að einkunnir í framhaldsskóla væru birtar með afhendingu einkunnablaða til nemenda og þá væri ákvörðunin bindandi, samanber 23. gr. stjórnsýslulaga. Umboðsmaður Alþingis féllst á þá niðurstöðu að bindandi réttaráhrif birtingar einkunnar þessa aðila hefðu öðlast gildi við afhendingu einkunnablaðs en ekki við prófsýningu rétt eins og menntamálaráðuneytið hélt fram. Aðilinn hefði því átt að fá 5 í einkunn í áfanganum en ekki 4 líkt og haldið var fram.

Við reifun þessarar ákvörðunar velti ég fyrir mér af hverju það er verið að gera svona mikið mál úr breytingu frá 5 í 4, þetta er samt fall. Mér finnst hins vegar líka mikilvægt að velta þeirri sviðsmynd fyrir mér hvað gerist ef komist er að þeirri niðurstöðu að annaðhvort synjun eða veiting verndar hér á landi til umsækjanda um alþjóðlega vernd, á grundvelli þessara lagaákvæða sem við erum búin að ræða í þaula í dag og í gær og aðra daga, sé ógild af því að það eru forsendur fyrir því að ákvarðanir Útlendingastofnunar sem eru teknar á grundvelli þessara laga sem ég er búinn að nefna hér í dag verði ógiltar. Hvað gerist þá við réttmætar væntingar þessa aðila máls?

Virðulegi forseti. Það sem ég er að reyna að segja og koma frá mér á mannamáli er að ég held að þetta frumvarp gæti í alvörunni stuðlað að mjög miklu réttaróöryggi og mikilli réttaróvissu þegar kemur að beitingu þessara laga og beitingu málsmeðferðarreglna sem gilda um stjórnvöld og ákvarðanir sem stjórnvöld taka um rétt eða skyldur manna. Það er skilyrði samkvæmt hinni óskráðu meginreglu um réttmætar væntingar að hann hafi verið í góðri trú um að unnt væri að uppfylla væntingar hans. Hann má ekki vera grandsamur um að yfirlýsing stjórnvaldsins hafi ekki verið bindandi af einhverjum ástæðum.

Miðað við samskiptaleysi Útlendingastofnunar nú, undir þessum lögum, við umsækjendur um alþjóðlega vernd og við fólkið sem stofnunin er að afgreiða tel ég að þetta gæti kannski ekki endilega orðið að vandamáli, að einstaklingurinn sem er að sækja um vernd hér á landi verði grandsamur um einhvers konar breytingar sem eiga sér stað af því að samskiptin fyrir það eru bara mjög lítil og þetta veldur mér ekki rosalega miklum áhyggjum.

Við mat á því hvort réttmætar væntingar aðila máls séu til staðar þá getur það skipt máli hvort málsaðili sé sérfræðingur á umræddu sviði eða hafi sér til ráðgjafar eða aðstoðar slíkan sérfræðing. Segjum svo að ég, góð í lögum og allt það, sæki um eitthvert dvalarleyfi eða sæki um vernd hér á landi og ég veit nákvæmlega hvaða gögnum ég er búin að skila inn og hvaða atriði þarf að uppfylla samkvæmt lögunum sem verið er að fara eftir. Þá myndi ég mögulega teljast sem sérfræðingur á þessu málasviði og því hafa réttmætar væntingar ekki skapast. Það njóta ekki allar væntingar málsaðila réttarverndar heldur bara þær sem samkvæmt hlutlægum mælikvarða geta talist réttmætar. Ég leggst oft gegn matskenndum og hlutlægum mælikvörðum en ég held að það sé alveg nauðsynlegt, í hófi, eins og hefur verið lagt til grundvallar í stjórnsýslulögum, því það hefur virkað, það hefur mótast í dómaframkvæmd og ég tel að það sé engin þörf á því að umbylta réttaráhrifunum sem réttmætar væntingar aðila máls hafa með lögfestingu einhverra nýrra laga.

En, virðulegi forseti, ég sé að tíminn er á þrotum og ég óska þess að verða sett aftur á mælendaskrá.