Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

um fundarstjórn.

[19:01]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Nú erum við að taka til við umræðu um útlendingafrumvarpið enn á ný og enn og aftur verð ég að ítreka þá ósk mína að hæstv. mennta- og barnamálaráðherra taki þátt í þessari umræðu til að fara yfir þau gríðarstóru álitaefni sem eru varðandi réttindi barna í frumvarpinu. Það hafa komið fram skýrar umsagnir þess efnis að gengið sé freklega gegn rétti barna á flótta. Þegar ráðherrann var spurður út í þetta í óundirbúnum fyrirspurnatíma fyrr í dag þá vék hann sér undan því að svara þeirri beinu spurningu, fór að ræða ýmislegt annað sem tengist málinu og börnum. Þetta þarf að vera á hreinu. Í fullkomnum heimi væri bara hægt að ræða þetta við ráðuneytið inni í nefnd, en meiri hlutinn hefur staðið gegn því að vísa þessu máli til nefndar nú þegar. Því er eini kosturinn í stöðunni að ráðherra mæti í salinn.

Þess vegna langar mig að spyrja, frú forseti: Hefur ráðherra svarað því hvort hann muni mæta? Hafi hann gert það, hvenær er von á honum?