Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:43]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Nú sýnist mér ég langt kominn með umfjöllun mína um fólk í umborinni dvöl sem ég er búinn að nefna hér nokkrum sinnum. Til upprifjunar erum við hér að tala um einstaklinga sem sótt hafa um alþjóðlega vernd á Íslandi, fengið endanlega synjun hér á landi en aðstæður haga því svo að ekki er hægt að koma þeim úr landi þar sem heimaríki þeirra tekur af einhverjum ástæðum ekki við þeim. Íslenska ríkið getur t.d. ekki framkvæmt þvingaðan brottflutning vegna þess að ekki er til staðar samningur á milli landanna tveggja til að Ísland geti komið með fólk þangað. Þannig er öllum meðulum beitt af hálfu íslenska ríkisins til að bæði hvetja og pína fólk til að yfirgefa landið og fara aftur til landsins sem það er að flýja.

Ég fór í síðustu ræðu yfir það hversu undarlegt mér þætti það að meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar, sem fékk þessa skýrslu í hendurnar tveimur vikum áður en málið var afgreitt til 2. umr., hafi ekki séð ástæðu til að bregðast einhvern veginn við stöðu þessa hóps, þó ekki væri nema bara með því að nefna tilvist hans eða með því, eins og lagt er til í skýrslu Rauða krossins á Íslandi, að auðvelda fólki í þessari stöðu að verða sér úti um bráðabirgðadvalar- og -atvinnuleyfi þannig að það geti séð sér farborða meðan það er innlyksa í landinu.

Þetta held ég samt að sé engin yfirsjón. Þetta er ekki óviljandi. Ef við grípum t.d. niður í ræðu sem var flutt af stjórnarliða fyrr í dag í andsvörum um þetta mál þá kom hv. þm. Birgir Þórarinsson, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í allsherjar- og menntamálanefnd, og var að spyrja hv. þm. Guðbrand Einarsson út í 6. gr. frumvarpsins sem snýst um þjónustusviptingu fólks eftir það er búið að hljóta endanlega synjun umsóknar um alþjóðlega vernd. Það ákvæði eitt og sér mun gera stöðu fólks í umborinni dvöl mun verri með því að taka af því þann litla stuðning sem þó er í boði af hálfu íslenska ríkisins. En hv. þm. Birgir Þórarinsson sagði, með leyfi forseta, um 6. gr. frumvarpsins að hún væri „mikilvæg grein til að sjá til þess að [kerfið] verði skilvirkara og við getum „kontrólað“ þá sem koma til landsins.“

Þetta gæti eiginlega ekki verið skýrara. Þingmaðurinn vill svelta fólk til hlýðni. Það er það sem þetta ákvæði hefur verið sagt gera. Það er leið til að stjórna fólki. Stjórnarmeirihlutinn í allsherjar- og menntamálanefnd er fullkomlega meðvitaður um að þetta ákvæði snýst um að hafa af fólki það litla sem það fær, gera það heimilislaust, án heilbrigðisþjónustu nema þeirrar allra nauðsynlegustu, án í raun nokkurrar aðkomu að neinu í samfélaginu. Í þessa stöðu vilja stjórnarliðar setja fólkið til þess að hægt sé að hafa betri stjórn á því. Hvað felst í þessari stjórn? Í þessari stjórn felst að pína fólkið úr landi, pína fólkið til að gera það sem stjórnvöld geta ekki gert með beinu valdi vegna þess að þau hafa ekki samninga við móttökuríkin til þess, pína fólkið til að fara aftur til landsins sem það flúði. Þetta er útlendingastefnan sem meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar lét stýra sér þegar hann náði saman um nefndarálit um frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga; útlendingastefna ómannúðar.