153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[20:10]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég er búinn að fara í gegnum umsögn Barnaheilla, landlæknis, Hafnarfjarðarbæjar og Íslandsdeildar Amnesty International. Sú næsta á listanum hjá mér — punktar — er umsögn frá Kvenréttindafélagi Íslands þar sem sagt er mjög einfaldlega að ekki hafi verið framkvæmt nægilegt jafnréttismat líkt og skylt er samkvæmt jafnréttislögum. Frumvarpið hunsar þau ólíku áhrif sem slíkar lagabreytingar hafa á stöðu kynjanna. Nú er einhver umfjöllun um þetta í nefndaráliti allsherjar- og menntamálanefndar, meirihlutaálitinu. En vandinn við svona álit eftir á, greiningu eftir á, er að hún hefur ekki áhrif á ákvarðanir um það hvernig frumvarpið lítur út, hvað eigi að gera, það er ekki hluti af því ákvarðanatökuferli sem fer í gang til að gera eitthvað skilvirkara eða mannúðlegra eða eitthvað því um líkt. Það er ekki hægt að nota eftiráskýringar til þess að gera betur í t.d. jafnréttismálum.

Í handbók Jafnréttisstofu segir að skoða þurfi hvort lögin muni koma til með að hafa áhrif á líf fólks og hvort, með leyfi forseta: „... munur sé á stöðu karla og kvenna í málaflokknum“.

Sko, það á sérstaklega við, að því er virðist vera —við vitum það ekki af því að það er ekki fjallað um það — að þetta hafi einmitt áhrif á einstæða karlmenn sem eru umsækjendur um alþjóðlega vernd. Það hljómaði alla vega svoleiðis í samtali nefndarinnar fyrir lok nefndavikunnar eftir áramót að þessi réttindaskerðing hefði einna helst áhrif á þann hóp og að sjálfsögðu eiga jafnréttislögin líka við um karla eins og konur hvað það varðar. Það er augljóst t.d. hvað það ákvæði varðar að jafnréttismat hefði áhrif á það hvernig slíkt ákvæði yrði útfært en ekki er tekið sérstaklega tillit til sérstakrar stöðu kvenna né karla eða annarra jaðarhópa, t.d. þolenda mansals eða kynfæralimlestinga.

Ekki hefur verið haft sérstakt samráð við fagaðila við vinnslu þessa frumvarps, eins og bent var á í sameiginlegri áskorun 15 félagasamtaka á Íslandi í maí á síðasta ári. Kvenréttindafélagið áréttar sem sagt vanrækslu Útlendingastofnunar enn og aftur við að meta hvort umsækjendur um alþjóðlega vernd séu í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Konur eru t.d. líklegri til að verða fyrir kynferðisofbeldi á meðan þær eru á flótta. Þær eiga einnig á hættu að deyja á meðgöngu og af barnsburði ef þær fá ekki viðhlítandi heilbrigðisþjónustu. Þetta er sama og Íslandsdeild Amnesty international bendir á, að Útlendingastofnun vanrækir að meta hvort fólk sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu, eða sleppir því eða skautar yfir það á einhvern hátt. Þá kannski sleppur hún við að finna ástæðuna fyrir því að viðkomandi eigi rétt á alþjóðlegri vernd. Eins og virðist vera gegnumgangandi þá er það markmið stjórnvalda, en ekki að uppfylla þau lög og skyldur sem við höfum og þá samninga sem við höfum undirritað.

Þrátt fyrir að barnshafandi konur eigi samkvæmt breytingunum á frumvarpinu að njóta áframhaldandi heilbrigðisþjónustu er ekkert tekið fram um önnur réttindi þeirra og eru þær þá í jafnmikilli hættu og aðrir á að lenda á götunni.

Kvenréttindafélag Íslands krefst þess að frumvarpið verði dregið til baka og ég bendi aftur á að ég tek hjartanlega undir þetta. Við erum einungis að biðja um að það verði sent til nefndar þannig að það verði hægt að ræða og koma til móts við þessar umsagnir. Kannski þarf einmitt, eins og bæði Íslandsdeild Amnesty International og Kvenréttindafélagið benda á, einfaldlega að draga þetta frumvarp til baka því það er troðfullt af þessum vandamálum. Það er kannski eitt eða tvö ákvæði sem eru rétt á ..., t.d. ákvæðið um (Forseti hringir.) vinu eða tímabundna — vinnuleyfi samhliða dvalarleyfi.

Ég bið forseta vinsamlegast að setja mig aftur á mælendaskrá.