Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[20:42]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Við erum enn að ræða þjónustusviptinguna, sem ég verð að játa að er kannski það ákvæði í þessu frumvarpi sem mér finnst einna leiðinlegast að ræða vegna þess að það er það mikið búið að benda á hvað það er hræðilegt, sem hefur einhvern veginn ekki ná eyrum fólks hérna. Og þetta er kannski það ákvæði sem ég held því miður að stór hluti hv. þingmanna meiri hlutans geri sér grein fyrir hvað þýði en sé samt reiðubúinn að samþykkja, þannig að þetta er svolítið eins og að vera að hlaupa í draumi eða öskra í vatni, það er eins og það muni ekkert hafa upp á sig. Ég ætla engu að síður aðeins að halda áfram að fara yfir þetta vegna þess að það er þó þannig að þær ástæður sem eru gefnar þarna eru að mörgu leyti hreinskilnar vegna þess að í greinargerðinni í þessu frumvarpi eru raunverulegar ástæður fyrir ákvæðunum ekki gefnar skýrt upp. En það er nokkuð skýrt í þessari greinargerð þó að það sé farið rangt með að þarna sé verið að samræma löggjöf við hin Evrópuríkin og hin Norðurlöndin. Það er bara alls ekki þannig. Eins og ég er búin að nefna ítrekað þá er löggjöfin í þeim ríkjum ekki einu sinni samræmd, hún er ekki öll eins þar.

Ég rakti ágætlega áðan fyrirkomulagið í Danmörku fyrir fólk sem er í þessari stöðu. Ímyndum okkur þá aftur mansalsfórnarlambið, konuna sem í íslenska kerfinu lendir á götunni án allrar aðstoðar, án húsaskjóls. Þið getið ímyndað ykkur hvaða stöðu það setur fórnarlamb mansals í að vera án húsaskjóls. Hvað gerir einstaklingur sem er búinn að missa öll tengsl við líkama sinn vegna ofbeldis? Hvað gerir viðkomandi einstaklingur til að reyna að verða sér úti um nauðsynjar ef þær eru ekki fáanlegar með neinum öðrum hætti? Ég held að það þurfi engan tölfræðing til að reikna það út að það séu yfirgnæfandi líkur á því að einstaklingur í þeirri stöðu, líklega kona eða hinsegin einstaklingur, það eru kannski þau sem eru líklegust til að lenda í þeirri stöðu, eru mjög líkleg til að lenda aftur í miklu ofbeldi.

Það er einmitt áhugavert að það er engin sérstök undanþága í þessari grein. Engin opin undantekning fyrir fólk í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Það er ekki opin undantekning fyrir fólk sem er andlega illa á sig komið. Þar eru engir varnaglar fyrir t.d. bara konur almennt eða hinsegin einstaklinga, sem við vitum að eru almennt sérstaklega berskjaldaðir hópar í heimilisleysi. Við þekkjum þetta vegna þess að þetta er nú þegar vandamál hér á landi. Hér eru nú þegar heimilislausar konur sem eru mjög útsettar fyrir mjög alvarlegu ofbeldi. Það er vandamál sem við eigum auðvitað að vera löngu búin að leysa með öllu. En það eru þessi jaðarsettu hópar sem eru líklegastir til þess að lenda í miklu ofbeldi og eru berskjaldaðastir fyrir því að verða heimilislausir. Það eru jafnvel þeir einstaklingar sem munu lenda á götunni ef þetta frumvarp verður að lögum.

Það er nú oft sagt við mig, þegar ég held þessu fram — fólk á erfitt með að trúa því og hugsar með sér: Nei, nei, Útlendingastofnun er ekkert svona vond. Það er fólk þarna sem er að vinna vinnuna sína og þetta eru ekki einhver skrímsli og annað. Ég er svo sem sammála því, en það er samt þannig að það eru teknar ákvarðanir sem maður skilur ekki hvernig geta mögulega verið teknar, bæði hjá Útlendingastofnun og þær sem hafa verið staðfestar af kærunefnd útlendingamála. Þegar ég fer að ræða sérstaklega 7. og 8. gr. frumvarpsins þá ætla ég að gleðja áhorfendur og áheyrendur með yfirferð yfir nokkra úrskurði kærunefndar útlendingamála þar sem eru mjög góð dæmi sem ég held að sýni öllum og ég vona alla vega að sýni einhverjum í meiri hlutanum hér á þingi að það er ekki nóg að krossleggja fingur og ætla að treysta kerfinu fyrir því að taka skynsamlegar ákvarðanir. Við þurfum að setja skýran ramma um það í lögin og í þessum ákvæðum, í 6. gr. þessa frumvarps, (Forseti hringir.) er enginn skýr rammi til að vernda fólk í sérstaklega viðkvæmri stöðu.

Ég óska eftir því að fara aftur á mælendaskrá.