Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[21:11]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil taka undir þessa bón. Það væri gott að fá svör við því hvað sé að frétta af svörum hæstv. ráðherra við bónum okkar um að þau komi hingað og svari fyrir það sem til stendur að gera hérna af hálfu ríkisstjórnarinnar og meiri hlutans hér á þingi. Ég hef verið spurð að því af hálfu þeirra sem eru að horfa og hlusta hvort t.d. hæstv. dómsmálaráðherra hafi tekið þátt í umræðunni framan af. Svarið er nei. Þegar fólk heyrir að hæstv. mennta- og barnamálaráðherra hafi heldur ekki tekið þátt í umræðunni þá eykst undrunin. Þegar kemur í ljós að hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra hefur ekki heldur tekið þátt í umræðunni þá skilur fólk lítið. Minnst skilur það þegar það fréttir, í ljósi allra þeirra mannréttindabrota sem eru hugsanleg með þessu frumvarpi, að hæstv. forsætisráðherra, ráðherra mannréttindamála, skuli heldur ekki hafa tekið neinn þátt í umræðunni um þetta mál.