Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[21:26]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég var að fara hérna yfir umsögn mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkur. Þau gera athugasemdir við takmarkanir á endurupptöku en telja þær takmarkanir vera andstæðar 24. gr. stjórnsýslulaga. Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa Reykjavíkur telur þessa takmörkun fela í sér óeðlilega réttarskerðingu fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd, enda tryggi stjórnsýslulög lágmarksrétt. Aftur. Aðrir umsagnaraðilar hafa sagt það sama, fólk sem kann stjórnsýslurétt og stjórnsýslulög, ólíkt þessari ríkisstjórn, að því er virðist.

Svo er það 8. gr. þ.e. vernd í öðrum ríkjum. Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa Reykjavíkur leggst alfarið gegn þeirri breytingu að mál skuli ekki vera tekið til efnismeðferðar ef einstaklingur er með vernd í öðru ríki heldur verði að leggja mat á hvert tilvik fyrir sig.

Það var fjallað dálítið um þetta á fundi nefndarinnar í lok nefndaviku í upphafi ársins, að t.d. þegar einhver sem er þegar með vernd í Grikklandi, kemur frá Sýrlandi eða hvaðan að sem er, hefur fengið vernd vegna stöðu sinnar í Sýrlandi og kemur síðan hingað til Íslands þá skoðar Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála stöðu viðkomandi í Grikklandi, ekki í Sýrlandi, enda er það óvefengjanlegt að viðkomandi er með vernd og á rétt á vernd frá stöðu sinni t.d. í upprunaríki. En það getur alveg gerst að viðkomandi þurfi líka vernd frá aðstæðum t.d. í Grikklandi, enda hafa verið gefnar út margar skýrslur um stöðu fólks þar en þó sérstaklega fólks sem er að leita að alþjóðlegri vernd og er með alþjóðlega vernd þar. Aðstæður fyrir fólk í Grikklandi hafa verið mjög slæmar þannig að meginreglan er aftur að það þarf að skoða hvert tilvik fyrir sig.

Nú eru tímafrestirnir einnig oft ræddir hjá umsagnaraðilum en mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa Reykjavíkur telur mikilvægt að umsækjendur um alþjóðlega vernd njóti enn þeirrar réttarverndar að fá umsögn sína tekna til efnismeðferðar frestist brottflutningur þeirra umfram 12 mánuði frá komu þeirra til landsins. Enda var þetta ákveðin breyting á útlendingalögum til þess einmitt að hvetja stjórnsýsluna á Íslandi til að vera fljót að klára mál til þess að komast mögulega hjá enn nákvæmari vinnu sem felst í efnismeðferð. En áður fyrr, fyrir þessa 12 mánaða tímatakmarkanir, þá ílengdist fólk og beið eftir úrlausn sinna mála alveg heillengi, miklu lengur. Það hefur þá lagast dálítið með tilkomu þessara tímafresta og það væri ekki góð hugmynd að bakka frá því. Það var ástæða fyrir því að það var tekið upp. Kannski virkar það ekki nægilega vel og það þarf að gera eitthvað meira til þess að fá það til að virka, en það er í anda þess að fólk fái skjóta niðurstöðu sinna mála, sem á að vera markmið þessa frumvarps en það er ekki með nokkru móti hægt að sjá að svo sé.

Nú eru takmarkanir á fjölskyldusameiningu í 13. gr. og leggst mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa Reykjavíkur líka gegn þeirri breytingu. Aðskilnaður fjölskyldumeðlima getur verið einstaklingum á flótta afar erfiður og haft áhrif á líðan og möguleika þeirra til að vera virkir þátttakendur í samfélaginu og síðan er jafnréttismat frumvarpsins ófullnægjandi, t.d. er ekki tekið tillit til fatlaðs fólks eða hinsegin fólks. Kannski treysta einhverjir ekki mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkur af einhverjum undarlegum pólitískum ástæðum. En þetta er líka Læknafélagið, þetta er líka Kvenréttindafélagið, þetta líka Þroskahjálp, þetta er líka landlæknir. Og þetta er líka Hafnarfjarðarbær sem er með annars konar pólitík en Reykjavík. Þetta líka Íslandsdeild Amnesty International og Barnaheill, Mannréttindaskrifstofa Íslands og fleiri sem segja öll sömu hlutina.

Ég held áfram, með umsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands næst og bið forseta vinsamlegast um að setja mig á mælendaskrá.