Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[21:47]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Ég hef varið nokkrum tíma í að fara yfir stórgóða skýrslu Rauða krossins á Íslandi um fólk í umborinni dvöl, þ.e. þá einstaklinga sem hafa fengið lokasynjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd en ekki er hægt að flytja úr landi af einhverjum ástæðum, fólk sem býr við ómannúðlegar aðstæður og Rauði krossinn vann mjög þarft verk með því að vekja athygli á. Það gerði Rauði krossinn ekki bara með því að taka eftir því, væntanlega á meðan samtökin sinntu því hlutverki að vera talsmenn fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd, heldur með því að þau tóku viðtöl við 15 einstaklinga í þessari stöðu og lögðu fram skýrslu þar sem eru settar fram fjórar tillögur til úrbóta sem er hægt að grípa til þannig að lagaumgjörðin nái betur utan um þetta fólk í því ómögulega limbói sem það er. Þetta eru ekki tillögur sem snúast um að veita þessu fólki alþjóðlega vernd eða eitthvað jafn róttækt og það. Þetta snýst bara um að á meðan fólk er fast í þessu millibilsástandi þá viðurkenni löggjafinn tilvist þess, einfaldi aðgengi þess að bráðabirgðadvalarleyfi og bráðabirgðaatvinnuleyfi og sjái til þess að börn sem þau kunna að eignast á meðan þau eru á Íslandi verði ekki ríkisfangslaus. Þetta eru allt saman breytingar sem Rauði krossinn leggur til að verði gerðar á löggjöfinni. Það sem Rauði krossinn gerði líka þegar skýrslunni var skilað til dómsmálaráðherra 3. nóvember sl. og til þingsins 30. nóvember var að láta fylgja með afleiðingar frumvarps til laga um breytingu á lögum um útlendinga á þennan hóp, þ.e. frumvarpsins sem við ræðum hér í dag.

Mig langar að aðeins að ræða hvað það er sem þeim finnst verst fyrir þennan hóp í frumvarpinu. Það er hin margumrædda 6. gr. um þjónustusviptingu 30 dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar í máli fólks sem sótt hefur um alþjóðlega vernd. Þar segir Rauði krossinn að með því að kveða á um að fella niður þjónustu hjá fólki, þjónustu sem varðar grunnvelferð þess, þá sé hætta á að alvarleg vandamál skapist. Þetta ætti nú að segja sig sjálft og miðað við hvernig stjórnarliðar hafa talað um þetta, bæði hér í pontu og í nefndaráliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar, þá held ég að fulltrúar Vinstri grænna, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks gerir sér fulla grein fyrir þessu. Þetta á að vera kylfa til að berja fólk úr landi. Umræddir einstaklingar, segir Rauði krossinn, yrðu með því jaðarsettari en þau eru fyrir, enn fátækari en þau eru fyrir, berskjaldaðir fyrir hvers kyns misneytingu, jafnvel mansali og ofbeldi. Þetta myndi fjölga heimilislausu fólki á Íslandi, auka örbirgð og neyð. Þetta myndi væntanlega bara velta einhverjum vanda yfir á félagskerfi sveitarfélaga og jafnvel auka verkefni lögreglu þegar fólk grípur til örþrifaráða til að hafa í sig og á.

Þetta höfðu stjórnarliðar í höndunum þegar þau afgreiddi málið úr nefnd. Þau átta sig á því að 6. gr. frumvarpsins um þjónustusviptingu er slæm fyrir öll sem hún snertir en alveg sérstaklega slæm fyrir þennan hóp sem Rauði krossinn bendir á í skýrslu um einstaklinga í umborinni dvöl. Engu að síður er ekkert komið til móts við það sem bent er á hér. Það er ekkert gert til að lina höggið fyrir fólk í umborinni dvöl. Það er ekkert gert til þess að kylfan sem 6. gr. frumvarpsins á að vera gagnvart fólki verði eitthvert mýkri, enda á hún að vera hörð. (Forseti hringir.) Stjórnarliðar vilja að hún meiði.