Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[22:03]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Hér í síðustu ræðu var ég fara yfir það hvernig Rauði krossinn benti á að afleiðingar af þessu frumvarpi myndu koma við fólk í svokallaðri umborinni dvöl, sem er lítill hópur einstaklinga sem hafa fengið lokasynjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd hér á landi en ekki er hægt að flytja úr landi af einhverjum ástæðum og búa þess vegna í einhverju lagalegu tómarúmi og millibilsástandi við ómannúðlegar aðstæður. Rauði krossinn á þakkir skildar fyrir að hafa vakið athygli á þessum hópi. En til viðbótar við þær tillögur að úrbótum á lagaramma sem fram koma í skýrslu Rauða krossins þá benda þeir á 6. gr. þessa frumvarps hér sem snerti sérstaklega þennan hóp, vegna þess að með þeirri grein er lagt til að réttur til þjónustu verið felldur niður 30 dögum eftir endanlega synjun á umsókn einstaklings um alþjóðlega vernd. Fólkið sem rætt var við fyrir skýrslu Rauða krossins er oft búið að vera hérna í fjögur, fimm og jafnvel fleiri ár, þannig að það er fólk sem hefði verið svipt þeirri litlu þjónustu sem ríkið lætur því í té. Réttur til framfærslu, húsnæðis og heilbrigðisþjónustu hefði fallið niður og fólk væri orðið heimilislaust án framfærslu. Þetta er ákvæðið sem ég hef aldrei skilið og mér finnst svo ótrúlegt að stjórnarliðum hafi ekki þótt ástæða til að taka betur á. En svo ég ljúki hér yfirferð yfir skýrsluna með því að vitna í niðurlag fylgiskjals, þá segir hér, með leyfi forseta:

„Með vísan til framangreinds telur Rauði krossinn á Íslandi rétt að dómsmálaráðherra skoði aðstæður umsækjenda sem fengið hafa lokasynjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd og ekki er hægt að flytja úr landi. Mikilvægt er að fundin verði úrlausn fyrir þennan hóp umsækjenda sem býr við vonlausar aðstæður og mikla jaðarsetningu sem eykur enn frekar á félagslega einangrun þeirra, kemur í veg fyrir að þeir eigi kost á að skapa sér sitt eigið lifibrauð og ýtir enn frekar undir útskúfun úr íslensku samfélagi.

Er það mat Rauða krossins að í stað ákvæðis 6. gr. frumvarps til laga um breytingar á lögum um útlendinga, varðandi niðurfellingu þjónustu 30 dögum eftir lokasynjun, væri nær að auðvelda fólki sem bíður endursendingar um lengri tíma að sjá sér sjálft farborða.

Af þeim sökum leggur Rauði krossinn eindregið til að fallið verði frá þeirri breytingu sem kveðið er á um í 6. gr. frumvarpsins og hvetur dómsmálaráðherra til að skoða aðstæður framangreinds hóps umsækjenda sérstaklega og taki á þeim gríðarstóra vanda sem hann býr við hér á landi.“

Mér finnst svo skemmtilegt við þessa tillögu að hún nær einhvern veginn að sameina það sem ég hefði kannski haldið að stjórnarflokkarnir stæðu fyrir, sem gerist nú ekki oft í útlendingamálum. Það er lagt til að í stað þess að fella niður þjónustu væri nær að auðvelda fólki að sjá sér sjálft farborða. Það að vera sjálfs síns herra, það að sjá sér farborða hélt ég að væri keppikefli Sjálfstæðisflokks að ná fram hjá fólki, það að fólk væri ekki upp á sósíalinn komið heldur gæti bara verið launafólk og lifað af því. Hér leggur Rauði krossinn það til en fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í allsherjar- og menntamálanefnd taka ekki undir það. Þetta myndi líka bæta félagslega stöðu þessa fólks. Það að svipta fólk einhverri grunnþjónustu og einhverjum grundvallarmannréttindum er eitthvað sem ég hefði nú aldrei trúað fólki í meintum félagshyggjuflokki eins og Vinstri grænum til að skrifa upp á en hann gerir það samt. Svo er náttúrlega það sem við höfum rætt hér ítrekað, hvernig Framsóknarflokkurinn, sem hefur lagt svo ríka áherslu á stöðu barna á síðustu árum hér á þingi, hvernig fólki þar á bæ dettur í hug að það geti verið góð hugmynd að, ja, ekki bara (Forseti hringir.) að búa til hóp ríkisfangslausra barna hér á landi heldur láta þau búa í örbirgð. (Forseti hringir.) Það er engin manngæska þar.