Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[22:25]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Þá er nú loksins komið að því, „uppáhaldsákvæði“ mínu í þessu frumvarpi, 7. gr. Hvers vegna er það uppáhalds? Jú, vegna þess að það áttar sig enginn á því hvað er að gerast þarna. Það er kannski ekkert skrýtið vegna þess að það er dálítið verið að hringla með hugtök og rugla fólk í ríminu og ekki nokkur leið fyrir manneskju sem er ekki löglærð að skilja það og torvelt fyrir jafnvel löglærða manneskju sem hefur ekki reynslu af málaflokknum.

Ég ætla að byrja á að lesa ákvæðið eins og það er orðað í frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Á eftir 35. gr. laganna kemur ný grein, 35. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Endurtekin umsókn.

Endurtekinni umsókn skal vísað frá. Þó skal taka endurtekna umsókn til meðferðar að nýju ef umsækjandi er staddur hér á landi og nýjar upplýsingar liggja fyrir í máli hans sem leiða til þess að sýnilega auknar líkur eru á því að fallist verði á fyrri umsókn hans skv. 24. gr.

Verði endurtekin umsókn tekin til meðferðar skal málsmeðferð hennar fyrst og fremst taka mið af þeim nýju upplýsingum eða gögnum sem liggja henni til grundvallar. Endurtekin umsókn telst ekki framhald fyrri umsóknar í skilningi 2. mgr. 36. gr. og 2. mgr. 74. gr. Óafgreiddar umsóknir falla niður við framkvæmd fyrri ákvörðunar eða ef umsækjandi yfirgefur landið sjálfviljugur á meðan endurtekin umsókn er til meðferðar, enda hafi réttaráhrifum fyrri ákvörðunar ekki verið frestað.“

Ég er örugglega búin að týna ykkur öllum en ég held áfram, með leyfi forseta:

„Endurtekinni umsókn skal beint að því stjórnvaldi sem tók þá ákvörðun sem leitað er endurskoðunar á og frestar ekki réttaráhrifum þeirrar ákvörðunar. Því stjórnvaldi sem hefur endurtekna umsókn til skoðunar er þó heimilt að fresta réttaráhrifum fyrri ákvörðunar, enda hafi umsækjandi óskað eftir því þegar hin endurtekna umsókn var lögð fram og sýnt fram á brýna nauðsyn þess að fresta framkvæmd. Endurtekinni umsókn skal þó beint að Útlendingastofnun hafi umsækjandi farið af landi brott samkvæmt fyrirmælum fyrri ákvörðunar en komið aftur til landsins.“

Þá kemur rúsínan í pylsuendanum, með leyfi forseta:

„Ákvæði 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, um endurupptöku gilda ekki um ákvarðanir í málum er varða alþjóðlega vernd.“

Ég ætla að reyna að útskýra mjög lauslega, áður en ég fer í smáatriði í þessu ákvæði, hvað er að gerast hér. Í greinargerð með þessu ákvæði í frumvarpinu segir að við samningu þessa ákvæðis hafi verið höfð til hliðsjónar Evróputilskipun sem geymir ákvæði um endurtekna umsókn og hvernig skuli farið með umsókn þegar fólk hefur fengið niðurstöðu í málum sínum og sækir um aftur. Það er í sjálfu sér ekki rangt í greinargerðinni að þarna sé litið til þessarar tilskipunar. Það er hins vegar rangt sem haldið hefur verið fram í rökstuðningi fyrir þessu frumvarpi á öðrum vettvangi, að þetta sé í samræmi við tilskipunina. Í umræddri tilskipun er sannarlega að finna ákvæði um endurteknar umsóknir og í núgildandi íslenskum lögum eru engin ákvæði um það hvernig skuli farið með umsókn sem lögð er fram að nýju, heldur fer hún í sama ferli og allar aðrar umsóknir þótt það séu reyndar heimildir í núgildandi lögum til að setja slíka umsókn í flýtifarveg. Það ætti að duga. Og það dugir. Hvers vegna er þá verið að setja þetta ákvæði? Jú, það er vegna þess — og það hefur ekkert með endurteknar umsóknir að gera enda eru endurteknar umsóknir ekkert sérstakt vandamál á Íslandi — með þessu ákvæði er laumulega verið að afnema rétt fólks til að fá mál sitt endurupptekið, sem er annar hlutur. Ef þú hefur ný gögn í máli þínu, þú ert búinn að fá lokaúrskurð og það koma fram ný gögn sem ekki voru fyrir hendi á meðan málið var til vinnslu hjá Útlendingastofnun og kærunefnd eða forsendur gjörbreyttar þá samkvæmt almennum stjórnsýslulögum, téðri 24. gr. stjórnsýslulaga m.a. sem nefnd er í ákvæðinu, á fólk rétt á því að fá málið endurupptekið. Þetta er ekki endurtekin umsókn, þetta er endurupptaka sama máls, sömu umsóknar.

Þá er ég búin að útskýra þetta í örstuttu máli. Ég vona að einhver hafi skilið það sem ég er að segja en ég mun halda áfram í næstu ræðu og óska eftir því að fá að fara aftur á mælendaskrá.