Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[22:36]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Eins og ég nefndi áðan þá langar mig að rifja aðeins upp þær breytingar sem hafa verið gerðar á útlendingalögunum frá því að þau tóku gildi fyrir sex árum. Það er svo fyndið að fyrsta breytingin var gerð áður en lögin einu sinni tóku gildi. Það var í desember 2016 þegar enn var þetta skemmtilega tímabil hérna á þingi þar sem ríkti stjórnleysi í merkingunni að það var ekki búið að mynda ríkisstjórn. Þá var ýmislegt sem gekk greiðlega, en það þýðir samt ekki að pólitíkin hafi verið einhvern veginn fyrir utan húsið vegna þess að allsherjar- og menntamálanefnd — það var Þórunn Egilsdóttir sem lagði þetta mál fram sem, að mig minnir, sem formaður nefndarinnar. Síðan fór það í gegnum nefndina og var afgreitt þannig. Það var bráðabirgðaákvæðið varðandi það að kæra frestaði ekki réttaráhrifum brottvísunar í tilviki umsókna sem væru metnar bersýnilega tilhæfulausar eða í tilvikum einstaklinga sem kæmu frá svokölluðum öruggum upprunaríkjum, hvort tveggja alveg ofboðslega „próblematísk“ hugtök þar sem skilgreiningin sveiflast svolítið eftir því hvernig vindar blása hjá Útlendingastofnun. Til dæmis minnir mig að það hafi einhvern tímann verið haldinn landsleikur í fótbolta milli Íslands og Úkraínu. Tveimur dögum áður var Úkraínu allt í einu bætt á lista yfir örugg upprunaríki vegna þess að mögulega hefur einhverjum í kerfinu þótt hætt við að allt í einu myndu allir þessir fótboltaáhugamenn fá viðbótaráhuga á því að ílendast á Íslandi sem umsækjendur um alþjóðlega vernd. Þess vegna breyttist þessi listi hjá Útlendingastofnun án einhvers sérstaks rökstuðnings.

En gott og vel. Þetta bráðabirgðaákvæði var samþykkt á þingi. Og einmitt inn í þá ímynd sem þetta mál hefur, þessi útlendingalög, að þetta séu lög hinnar breiðu pólitísku sáttar, þá segir það sína sögu að það var alls ekki raunin í atkvæðagreiðslunni um þessa fyrstu breytingu, sem snerist um að það væri hægt að henda fólki úr landi þótt það ætti enn mál til umfjöllunar fyrir kærunefnd t.d., sem er praxís sem kerfið vill geta viðhaft til að fólk eigi engan séns. Þegar fólk er komið úr landi, sama þó að það sé áfrýjað, er miklu minni von til þess að áfrýjunin beri einhvern ávöxt.

Þessi breyting var samþykkt með atkvæðum flokkanna sem síðan urðu stjórnarflokkar; Björt framtíð, Sjálfstæðisflokkur og Viðreisn, þó með tveimur hjásetum í Viðreisn. Síðan sátu Píratar og Vinstri græn hjá og Samfylkingin skiptist nokkuð jafnt á milli þess að styðja þessa breytingu og greiða ekki atkvæði. Strax þarna, tveimur vikum áður en lögin tóku gildi, vorum við hér í sal með mjög ólíka sýn á það hvert ætti að halda áfram, hvernig útlendingalögin myndu þróast. Þarna var fyrsta skrefið stigið og það snerist um að draga úr möguleikum umsækjenda um alþjóðlega vernd til að sækja rétt sinn fyrir dómstólum eða kærunefnd. (Forseti hringir.) Sagan hefur haldið áfram og mun gera það hér síðar.