Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[22:47]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Nú er hálfur sólarhringur frá því að þessi þingfundur hófst og mig langar bara að rifja upp fyrir forseta hvar við byrjuðum daginn. Við byrjuðum daginn á því að enn einu sinni lögðu Píratar til að þetta mál gengi til nefndar. Við lögðum til að forseti hætti að láta þetta vanreifaða og illa hugsaða frumvarp, um að draga úr réttindum fólks á flótta, þvælast fyrir öðrum brýnni þjóðþrifamálum. Með því að vísa málinu til nefndar í morgun hefði meiri hluti Alþingis getað hleypt öðrum málum á dagskrá en velur að fjalla bara um útlendingamál í hálfan sólarhring. Þetta finnst mér ekki vel farið með tíma þingsins og ég vil því ítreka þá beiðni mína til forseta að fresta 2. umr. um þetta frumvarp og vísa því til hv. allsherjar- og menntamálanefndar þannig að hún geti unnið almennilega úr þeim alvarlegu (Forseti hringir.) athugasemdum sem fram hafa komið við málið.