Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[22:56]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég verð að viðurkenna að mér hefur þótt dálítið undarlegt að taka þátt í umræðu um þetta mál á þeim forsendum sem stjórnarmeirihlutinn leggur það upp, vegna þess að ég veit ekki hvort ég er að ræða um tillögur sem þau vilja halda til streitu eða hvort þau ætli að breyta einhverjum ákvæðum milli 2. og 3. umr. Það er þess vegna sem við þurfum að fá þetta mál til nefndar til þess að við fáum á hreint hvaða mál við erum í raun og veru að ræða, hvað stendur í þeim ákvæðum sem hér er verið að fjalla um eins og meiri hlutinn vill fá þau í gegn á endanum. Á meðan þetta er óljóst verður umræðan öll miklu ómarkvissari. Þá þurfum við að kafa ofan í hvert einasta atriði, hvert einasta álitaefni og þyrftum auðvitað helst að eiga orðastað við ýmsa ráðherra, þar á meðal þann ráðherra sem heldur því fram að hann standi með réttindum barna en fékkst ekki til að svara hér í óundirbúinni fyrirspurn í byrjun dags hvað honum þætti um ákvæði í frumvarpinu sem ganga í berhögg við réttindi barna, Barnasáttmálann og ýmsar aðrar mannréttindaskuldbindingar. Ráðherrann þarf að mæta hingað og ræða við okkur hvort honum sé alveg skítsama um réttindi barna ef þau eru á flótta.