Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[22:59]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þm. Lenyu Rún Taha Karim um að það er ánægjulegt að sjá hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur hér í salnum og væri ánægjulegra að sjá fleiri þingmenn meiri hlutans hér til þess að spjalla um þetta við okkur. Mig langar til að vekja athygli á því að þegar við vorum að ræða þetta mál í hv. allsherjar- og menntamálanefnd var svo mikill asi á að koma málinu út úr nefndinni að það var ekki búið að þýða umsögn Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna áður en nefndarálit meiri hlutans kom út, enda ekki tekið á umsögninni að neinu marki þar þrátt fyrir að meiri hlutinn hafi verið búinn að gefa út sitt nefndarálit með breytingartillögum sem taka þó í engu á þeim vandamálum sem bent var á af hálfu umsagnaraðila og gesta sem komu fyrir nefndina. Þá, þegar málið var rætt í allsherjar- og menntamálanefnd eftir áramót, án þess að málið væri tekið inn í nefndina, voru það samt líka þingmenn meiri hlutans sem sáu ástæðu til þess að kalla frekari gesti fyrir nefndina, sem hv. þingmaður meiri hlutans, Jódís Skúladóttir, hefur sagt að gefi tilefni til breytinga á frumvarpinu. (Forseti hringir.) Við vitum svo sem ekkert hvaða breytingar það eru og það er í mikilli móðu hvort það eigi að gera einhverjar efnislegar breytingar eða bara stafsetningarbreytingar. (Forseti hringir.) En ég tek undir þá kröfu sem hefur komið hér fram: Þetta mál á heima í hv. allsherjar- og menntamálanefnd og er ekki tilbúið til 2. umr.