Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[23:01]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Þetta er einmitt mjög mikilvæg ábending sem hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir kemur með, að þegar 2. umr. klárast þá þarf að greiða atkvæði um hverja grein frumvarpsins. Hvernig á t.d. að greiða atkvæði um 1. gr., sem fjallar um þessa endurteknu umsókn sem eru gerðar athugasemdir við? Á að samþykkja hana? En ef það þarf síðan að endurskoða hana í nefndinni? Ekki á að fella hana af því að þá fellur frumvarpið. Þá eru ekkert fleiri atkvæðagreiðslur um frumvarpið ef 1. gr. er felld í 2. umr. Þurfum við að fara í gegnum allar greinarnar hérna og á þingheimur að segja já og nei? Og ef þingheimur segir já, af hverju er málið þá að fara inn í nefndina til að endurskoða jafnvel ákvæði sem þingheimur var að segja já við og er eitt af ómögulegu atriðunum sem er gerð athugasemd við vegna mannréttindasáttmála og stjórnarskrár? Það er augljóst að málið má ekki koma hingað inn til þingsins nema það sé tryggt að það líti þannig út að það brjóti ekki gegn stjórnarskrá.