Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[23:11]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Forseti segist stjórna fundum samkvæmt stjórnarskrá og lögum o.s.frv. og þingmönnum sé frjálst að ræða síðan efnisatriði um hvort lög og frumvörp sem eru hérna standist stjórnarskrá o.s.frv. Nú erum við Píratar ekkert að skálda þetta, við erum ekkert að búa þetta til, þetta er í umsögnum nær allra umsagnaraðila sem við erum að benda á og augljóst að í efni nefndarálits meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar er ekki komið til móts við það. Þeim áhyggjum umsagnaraðila er ekki svarað. Þannig að já, við erum tvímælalaust að benda forseta á og forseti hlýtur að deila áhyggjum okkar af þessari stöðu. Ég get ekki séð annað. Ég veit að forseti hefur dálæti á stjórnarskránni, sérstaklega núgildandi stjórnarskrá, síður uppfærðri, því miður. En ég myndi vilja vita aðeins nánar um það sem hv. þm. Gísli Rafn Ólafsson spurði hérna áðan undir (Forseti hringir.) fundarstjórn forseta með tilliti til þeirra atriða sem varða stjórnarskrá.