Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[23:14]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég ætla bara að nýta tækifærið, fyrst hæstv. forseti, sem er með dagskrárvaldið, er hér inni og situr í forsetastól, til að ítreka það sem ég sagði í fyrri ræðu minni um fundarstjórn forseta. Það lýtur að fundarstjórn forseta, aldrei þessu vant. Þetta snýst um það að ég ætla að minna meiri hlutann á að þau eru með dagskrárvaldið. Ég hef séð fyrirsagnir um að Píratar séu að halda þinginu í gíslingu. Svo er ekki. Við erum ekki með dagskrárvaldið. Við erum búin að benda meiri hlutanum á að það er hægt að taka önnur mál fram fyrir þetta. Ég skal með glöðu geði bara tala sem minnst, jafnvel þótt mig langi að tala í umræðu um frumvarp um peningasjóði, en það er bara annað mál. Ég ætla bara að ítreka það sem ég sagði í fyrri ræðu minni og minna forseta á að þau eru með dagskrárvaldið. Það var alveg ljóst frá byrjun að Píratar myndu tala mikið í þessu máli af því að þetta er rosalega umfangsmikið og stórt mál sem varðar réttindi og skyldur borgara.