Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[23:48]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Andrési Inga Jónssyni um það sem fram kom í ræðu hans hér. Ég þarf ekkert að tíunda það sem hefur komið fram í fundarstjórn síðustu tíu mínúturnar. En það leikur vafi á því hvort ákvæði þessa frumvarps samræmist stjórnarskrá. Það er búið að benda á þetta í umsögnum. Þingmenn hafa bent á þetta í ræðum sínum hér, örugglega í 1. umr. líka en sérstaklega í 2. umr. Því átta ég mig bara ekkert á þessu þrjóskukasti sem hæstv. dómsmálaráðherra er í. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem þetta frumvarp hefur verið lagt fram, ekki í annað skipti, ekki í þriðja skipti, ekki fjórða, heldur ekki í fimmta skiptið. Því velti ég fyrir mér, ef markmið hæstv. dómsmálaráðherra væri raunverulega að auka skilvirkni þessa kerfis, þá hefði hann tekið þessar ábendingar og þessar umsagnir til greina áður en hann lagði þetta fram aftur í fimmta skiptið í stað þess að koma þessu frumvarpi hér í gegn á þinginu, setja það sem fyrsta dagskrármálið og heimta að þetta klárist á undan öðrum málum þrátt fyrir það að hann viti að þetta (Forseti hringir.) muni koma af stað mikilli umræðu af hálfu þingmanna stjórnarandstöðunnar. (Forseti hringir.)