Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[23:51]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Ég hef verið að fjalla um hinar ýmsu vondu greinar þessa vonda frumvarps. Ég var á þeim stað að fjalla um ákvæði frumvarpsins, þ.e. 4. gr., sem leyfir lögregluyfirvöldum að afla heilbrigðisvottorðs um flóttamenn án þeirra samþykkis og án úrskurðar dómstóla. Ég var að fara yfir hvernig það stenst ekki 71. gr. stjórnarskrárinnar og hvernig þetta eitt og sér er nóg til að kalla málið aftur inn til nefndar. Ég vildi í raun ljúka þessum hluta — já, einmitt, mikið rétt, ég var komin í 6. gr. Hún er um sviptingu réttinda flóttafólks sem af einhverjum orsökum festist hér á landi eftir að hafa fengið endanlega neikvæða niðurstöðu í máli sínu frá kærunefnd útlendingamála. Það er sem sagt lagt til í þessu frumvarpi að að 30 dögum liðnum þá falli niður öll þjónusta. Með þjónustu er átt við kannski aðgang að herbergi sem deilt er með öðrum, 8.000 kr. á viku til að hafa í sig og á og lágmarksheilbrigðisþjónustu. Það á sem sagt að fella þetta allt saman niður. Ég var að vísa í það sem stendur í umsögn Rauða krossins um þetta atriði, með leyfi forseta:

„Áhrif tillögunnar á stöðu, velferð og mannvirðingu umsækjenda um alþjóðlega vernd eru nokkuð augljós. Réttur þeirra til framfærslu, húsnæðis og heilbrigðisþjónustu fellur niður og því er fyrirséð að þau sem ekki yfirgefa landið innan 30 daga verða heimilislaus án framfærslu. Ekki má heldur draga úr mikilvægi þess að fólk njóti grunnheilbrigðisþjónustu á meðan það dvelur hér á landi.“

Hér er atriði sem mér finnst mikilvægt að árétta, sem er það sem ég hef verið að koma inn á, hvernig Útlendingastofnun gerir fólki það eiginlega algjörlega ómögulegt að færa sönnur á að það sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu og eigi rétt á að njóta verndar hér á landi og hvernig kerfið vinnur gagngert gegn því að það geti fært sönnur á það og hversu skelfilegt og bara fáránlegt þetta er ef við setjum það í samhengi við þessa hundaflautupólitík, sem hefur verið hérna í gangi, þar sem er talað um að við getum ekki hjálpað öllum og við verðum að forgangsraða fólki í neyð. Þar með er verið að gefa í skyn að fólk sem sækir hér um alþjóðlega vernd sé ekki raunverulega í neyð heldur sé bara að þykjast eða eitthvað. Þegar aðilinn sem sinnir þessum málaflokki hvað mest og hefur gert það hvað lengst og hefur verið talsmaður flóttafólks á Íslandi hvað lengst segir hér svart á hvítu, algerlega skýrt, að Útlendingastofnun sinni ekki sinni rannsóknarvinnu á því hvort fólk eigi raunverulega rétt á að vera hér og fá mál sitt tekið upp og standi í vegi fyrir því að flóttafólk geti sjálft sýnt fram á það — og svo er talað um að við eigum bara að hjálpa þeim sem eru í raunverulegri neyð. En við komum í veg fyrir að fólk geti sýnt fram á að það sé það. Þannig virkar kerfið hérna.

Þetta er einmitt mikilvægt í samhengi við þessar svokölluðu undanþágur frá því að henda fólki á götuna. Það á sem sagt að vera voða næs með því að segja að nokkurn veginn allir nema fullfrískar konur og karlar, barnlaus, verði ekki svipt þessari litlu þjónustu sem þau þó hafa. En það er mikilvægt að taka fram í þessu samhengi að það er mjög erfitt að færa sönnur á t.d. að maður sé alvarlega veikur einstaklingur eða að maður sé fatlaður einstaklingur með ríkar stuðningsþarfir o.s.frv. Það hefur verið reynsla Rauða krossins.

Nú er ég einmitt komin á þann stað sem ég ætlaði mér að vera á, sem er að þessar undanþágur, miðað við framkvæmdina hingað til, hafa ekki orðið til þess að veita mér öryggiskennd um að engum öðrum en fullfrísku fólki verði hent á götuna. Ég vil aftur taka það fram að mér finnst á engan hátt réttlætanlegt að henda neinum á götuna og taka af neinum heilbrigðisþjónustu því að ég tel ekki að það geti verið neinum til góða eða að nokkur maður geti höndlað það, eigum við að segja í febrúarmánuði hérna á Íslandi? (Forseti hringir.) En komum að þessum undanþágum í næstu ræðu, virðulegur forseti. — Ég óska eftir því að vera sett aftur á mælendaskrá.