153. löggjafarþing — 59. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[01:47]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegi forseti. Hér er ég með uppáhaldsbókina mína í öllum heiminum, eftir hæstv. Pál Hreinsson. Hann er ekki bara hæstvirtur heldur er hann líka geitin í leiknum. Fyrir mér mótaði hann stjórnsýslulögin eins og þau eru í dag og hann kvað mjög skýrt á um hvernig beita ætti þessum lögum og þeim reglum sem eru settar og við erum að nota hér þegar kemur að úrlausn mála er varða umsækjendur um alþjóðlega vernd og hvort þau fái vernd til að byrja með.

Þessi bók heitir Stjórnsýsluréttur — málsmeðferð. Þetta er náttúrlega grundvallarbók allra lögfræðinga og allra sem eru að vinna með lög. Hún er 991 bls. og því kalla ég hana Biblíuna. Þetta er mín Biblía, virðulegi forseti. En til að setja þetta í samhengi við útlendingafrumvarpið sem við erum að tala um hér þá finnst mér mikilvægt að reifa það sem Páll Hreinsson sagði í bókinni sinni varðandi stjórnvaldsákvarðanir. Hann segir, með leyfi forseta:

„Þegar stjórnvöld taka íþyngjandi stjórnvaldsákvarðanir í garð borgaranna þurfa þær að eiga sér skýra lagastoð skv. lögmætisreglunni (d. legalitetsprincippet). Oftast eru íþyngjandi stjórnvaldsákvarðanir auðþekkjanlegar þar sem almennt á þá að vera skýr heimild í lögum til að taka slíkar ákvarðanir. Stjórnvöld geta aftur á móti tekið ýmsar ákvarðanir, sem ekki teljast íþyngjandi án þess að hafa til þess jafn skýra lagaheimild.

Þegar stjórnvald ræður niðurstöðu tiltekins og fyrirliggjandi máls til lykta með einhliða ákvörðun er það iðulega glöggt merki um það, að það hafi beitt opinberu valdi með stjórnvaldsákvörðun. Þetta greinir stjórnvaldsákvarðanir oftast skýrlega frá ákvörðunum, sem stjórnvöld taka á einkaréttarlegum lagagrundvelli. Afar margar ákvarðanir, sem stjórnvöld taka, eru ekki teknar á grundvelli opinbers valds sem stjórnvöld hafa einkarétt á að beita, heldur aðallega á grundvelli einkaréttarlegra heimilda, sem almenningur getur einnig beitt. Ákvörðun stjórnvalds um að ganga til samninga um leigu í skrifstofuhúsnæði, bifreið, loftfari eða skipi er ekki einhliða stjórnvaldsákvörðun þar sem hún er ekki tekin í skjóli stjórnsýsluvalds heldur byggð á tvíhliða samningi á einkaréttarlegum grundvelli. Hið sama gildir um ákvörðun stjórnvalda um kaup eða sölu á húsnæði, hlutabréfum, skrifstofuhúsgögnum eða ritföngum, eða ákvörðun um að ganga til samninga við verktaka um að leggja veg eða byggja hús.“

Virðulegur forseti. Ég held að við höfum farið ágætlega í gegnum hvað telst vera stjórnvaldsákvörðun og svo var komið lauslega inn á það hvað telst vera íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun. Mér finnst mjög gott að hafa þessar skilgreiningar og þessar skýringar í huga við afgreiðslu þessa frumvarps af því að t.d. 6. gr. — ó, 6. gr., virðulegi forseti, hvað ætlum við að gera við 6. gr.? Við erum búin að koma hingað upp trekk í trekk og gagnrýna þessa 6. gr. Við beitingu 6. gr. finnst mér mjög mikilvægt að hafa í huga skilgreininguna á íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun.

En þetta er ekki það eina sem mig langar að tala um sem Páll Hreinsson nefnir í Biblíunni sinni, heldur langar mig líka tala um kaflana „hefur bindandi réttaráhrif um úrlausn tiltekins máls“ og „er beint út á við að borgurunum“. Já, beitingu þeirra heimilda sem fást með þessu frumvarpi, ef það skyldi vera lögfest, er beint út á við gagnvart borgurunum — og svo: „bindur enda á stjórnsýslumál“. Já, þegar það er búið að komast að endanlegri niðurstöðu um mál einhvers tiltekins umsækjanda á grundvelli þessara laga sem við erum að ræða hér í dag þá bindur það væntanlega enda á stjórnsýslumál.

Mig langar bara að vita, virðulegur forseti, hvernig ferlið var í dómsmálaráðuneytinu þegar þetta frumvarp var samið. Var þessi Biblía við hlið lögfræðinganna í ráðuneytinu þegar þeir voru að semja þetta? Ég er í rosalega forvitin út af því að því meira sem ég hakka þetta frumvarp í mig — út af því að maður les náttúrlega frumvarp þegar það birtist í samráðsgáttinni og kemur strax auga á nokkra hluti sem eru varhugaverðir, en því dýpra sem maður kafar, því fleiri annmarka finnur maður á því. Nú er ég búin að vera að tala um þetta frumvarp í 24 tíma, meira en það, og ég er búin að komast að svo mörgum lagalegum annmörkum og ég fæ ekki séð hvernig þetta samræmist málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttar. En ég mun koma betur inn á það í næstu ræðu minni, virðulegi forseti, þannig að settu mig endilega aftur á mælendaskrá.