Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[02:03]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegi forseti. Ég var að finna snilldarkafla í þessari bók. Það er ástæða fyrir því að ég kalla hana Biblíuna, virðulegi forseti. Þetta er eitthvað sem ég er búin að vera að tala um síðan í gær og ég er örugglega búin að hamra á í öllum ræðum mínum, þ.e. að setja sérreglur um málsmeðferð og endurupptöku umsóknar þegar það eru nú þegar til ágætisákvæði fyrir því í almennum stjórnsýslulögum. En Páll Hreinsson skrifaði bara nákvæmlega um þetta í kafla 3.3., sem heitir Árekstrar og lagaskil á milli málsmeðferðarreglna stjórnsýslulaga og annarra laga. Þar segir, með leyfi forseta:

„Stjórnsýslulögin hafa afmarkað og sérhæft efni þar sem þau hafa nánast eingöngu að geyma málsmeðferðarreglur, sem fylgja ber við töku stjórnvaldsákvarðana. Lögin hafa á hinn bóginn vítt gildissvið þar sem þau taka að meginstefnu til allra stjórnvalda ríkis og sveitarfélaga, þegar þau taka stjórnvaldsákvarðanir. Þar sem í öðrum lögum er einnig að finna ákvæði um meðferð mála á ákveðnum sviðum, er ljóst að slík ákvæði geta rekist á málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga. Verði slíkar reglur ekki samþýddar með lögskýringu verður að taka afstöðu til þess hvorar gangi framar.“

Hér kemur besti parturinn, tilvitnun heldur áfram:

„Hér á eftir verður tekið til nánari umfjöllunar hvernig með skuli fara þegar í öðrum lögum er að finna málsmeðferðarreglur sem ekki eru samþýðanlegar málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga. Fyrst verður vikið að eldri lögum en stjórnsýslulögum sem hafa að geyma málsmeðferðarreglur. Að því búnu verður vikið að málsmeðferðarreglum yngri laga.

Virðulegur forseti. Ég held að ég hafi ekki tíma til að fara yfir allan kaflann en ég mun gera það í næstu ræðu. En þvílík snilld er þessi bók, virðulegur forseti, og þvílíkur snillingur sem Páll Hreinsson er. Ég var bara búin að gleyma því hvað þetta er ógeðslega góð bók og ég hvet hæstv. dómsmálaráðherra til að glugga aðeins í þessa bók þegar hann ætlar að leggja fram næsta frumvarp sitt sem kveður á um réttindi eða skyldur manna.

Virðulegi forseti. Því meira sem ég les fræðiskrif og réttarheimildir og bara lögfræði, því meira átta ég mig á því að þetta frumvarp sem hæstv. dómsmálaráðherra er að leggja fram er bara ekki í samræmi við lög, núgildandi lög, sérstaklega málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga. Ég veit að þetta gæti virst vera eitthvað rosalega mikið smáatriði sem ég er að hengja mig rosalega mikið á, en það er hægt að fara svo ótrúlega djúpt í þetta. Mín sýn á það hvernig þetta frumvarp var samið af dómsmálaráðuneytinu er að það var bara skrapað á yfirborðinu, bara tekin fyrstu skilyrðin. Heyrðu, er þetta stjórnvald? Já, er þetta sett á fót með lögum? Er þetta rekið fyrir almannafé? Ég veit ekki hvað og hvað. Ókei, flott, við þurfum þá ekkert að pæla í fleiri stjórnsýslulögum, við þurfum ekkert að pæla í fleiri meginreglum um stjórnsýslurétt og þá er þetta bara komið. En nei, virðulegi forseti, það er sko fullt af öðrum atriðum sem þarf að taka til greina, sérstaklega ef það er árekstur eða lagaskil á milli málsmeðferðarreglna stjórnsýslulaga og annarra laga, eins og hæstv. dómsmálaráðherra ætlar sér að gera með lögfestingu þessa frumvarps. Hér er bara viss árekstur. Fordæmin sem þetta mun skapa til frambúðar og fyrir önnur stjórnvöld er náttúrlega rosalega — ég veit ekki hvort það sé hættulegt. Jú, þetta er hættulegt. Við erum bara með mjög fín lög. Sjálfstæðisflokkurinn er kannski ekki uppáhaldsflokkurinn minn en það besta sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur örugglega gert er að koma þessum lögum, nr. 37/1993, stjórnsýslulögum, í gegn. Þetta eru frábær lög og það þarf ekkert að breyta þeim. Það þarf ekkert að koma öðrum lagaákvæðum sem eru sambærileg stjórnsýslulögunum inn í aðra lagabálka til að beita á einhvern annan hátt en samt á svipaðan hátt og er kveðið á um í stjórnsýslulögum.

Virðulegur forseti. Við erum að mikla þetta allt of mikið fyrir okkur. Tökum þetta bara út. — En ég er ekki búin og ég óska eftir því að ég verði sett aftur á mælendaskrá.