Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[02:09]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Ég var að fjalla um börn sem fæðast hér á landi, börn sem fæðast foreldrum sem eru útlendingar, einstaklingar sem hafa fengið lokasynjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd en ekki er hægt að flytja úr landi af einhverjum ástæðum. Ég er að fara yfir umfjöllun um þennan sérstaklega viðkvæma hóp í skýrslu Rauða krossins.

Áður en ég held áfram tilvitnun minni í skýrslu Rauða krossins vil ég halda því til haga að við erum aðilar að samningi um að vinna gegn ríkisfangsleysi og mér hefur blöskrað hvað við lítum það léttvægum augum, skyldur okkar til að vinna gegn ríkisfangsleysi. Það á sérstaklega við um börn sem fæðast hér á landi, börn flóttafólks sem hefur einhverra hluta vegna ekki góða stöðu hér. Það er fjallað um þennan hóp á bls. 4 í skýrslu Rauða krossins, um börn viðmælenda Rauða krossins, sem gerði skýrslu um 15 einstaklinga sem eru í þessari stöðu:

„Einhver börn viðmælenda hafa fæðst hér á landi og eru því ríkisfangslaus þrátt fyrir að skráning þeirra hér á landi beri það ekki með sér. […] Þó flest börn erfi ríkisfang foreldra sinna eru mörg börn sem erfa það ekki. Fjöldi flóttabarna öðlast sjálfkrafa ríkisfang foreldra sinna við fæðingu en það ríkisfang verður oft einungis til í orði, þar sem foreldrum er meinað að skrá barn sitt hjá yfirvöldum í heimalandinu. Veruleg vandamál hafa skapast innan ríkja Evrópu vegna skorts á skýrum leiðbeiningum um þennan vanda, mismunandi framkvæmd í fæðingarskráningum og almennum skorti á meðvitund um vandann í aðildarríkjum ESB. Afleiðing þess er sú að þúsundir flóttabarna falla á milli þilja í kerfinu og eru dæmd til ríkisfangsleysis. Ef Evrópuríkin grípa ekki inn í er um alvarlegt mannréttindabrot að ræða sem bregðast þarf við til að alþjóðlegar skuldbindingar ríkjanna verði uppfylltar, hagsmunir barna virtir og stuðlað verði að jákvæðri aðlögun þeirra að samfélaginu.

Í 7. gr. barnasáttmálans er rétturinn til nafns og ríkisfangs varðveittur. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. skal barn skráð þegar eftir fæðingu og á það frá fæðingu m.a. rétt til nafns og að öðlast ríkisfang. Í 2. mgr. segir svo að aðildarríki barnasáttmálans skuli tryggja að réttindum þessum sé komið í framkvæmd í samræmi við lög sín og skuldbindingar í viðeigandi alþjóðasamningum á þessu sviði, einkum í þeim tilvikum þegar barn yrði ella ríkisfangslaust.

Í ákalli sem UNICEF og Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna sendu frá sér í desember 2019 voru ríki Evrópu hvött til þess að fara í brýnar aðgerðir til að enda ríkisfangsleysi í Evrópu. Hætta er á að ríkisfangslaust barn verði fyrir ofsóknum í skilningi alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 í upprunalandi sínu en slíkt getur valdið því að barn þurfi á viðbótarvernd að halda í því ríki sem það hefur flúið til eða fæðst í. Þá eru dæmi um að yfirvöld í upprunalandi barna sem fæðst hafa í Evrópu vilji ekki taka þeim þegar brottvísa á þeim til upprunalandsins eftir að hafa fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd í Evrópu ef þau eru ekki skráð ríkisborgarar þess.

Af framangreindu er ljóst að íslenskum stjórnvöldum ber skylda til að sjá til þess að börn sem fæðist hér á landi verði ekki ríkisfangslaus, enda eigi öll börn rétt til að öðlast ríkisfang þegar eftir fæðingu.“

Hér komum við að afleiðingum þessa frumvarps til laga um breytingar á lögum um útlendinga, með leyfi forseta:

„Dómsmálaráðherra hefur nýverið lagt fram frumvarp til laga um breytingar á lögum um útlendinga. Frumvarpið tekur því miður ekki á þeim mikla vanda sem framangreindur hópur stendur frammi fyrir hér á landi en Rauði krossinn telur nauðsynlegt að tekið verði sérstakt tillit til umsækjenda sem fastir eru réttindalausir á Íslandi. Með ákvæði 6. gr. frumvarpsins er lögð til sú grundvallarbreyting á réttindum umsækjenda um alþjóðlega vernd að réttur til þjónustu verður felldur niður 30 dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar í máli þeirra en verði frumvarpið að lögum yrðu afleiðingar þessa ákvæðis gríðarlegar. Áhrif tillögunnar á stöðu, velferð og mannvirðingu umsækjenda um alþjóðlega vernd eru nokkuð augljós. Réttur þeirra til framfærslu, húsnæðis og heilbrigðisþjónustu fellur niður og því er fyrirséð að þau sem ekki yfirgefa landið innan 30 daga verða heimilislaus án framfærslu. […]

Með því að kveða á um niðurfellingu á þjónustu er varðar grunnvelferð fólks er hætta á að alvarleg vandamál skapist.“

Og þetta snýr líka að börnum sem fæddust hér og fengu engu um það ráðið hverjir foreldrar þeirra eru. Ég óska þess að við snúum af þessari mannvonskubraut.