Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[02:17]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Takk fyrir þessa samantekt. Þetta mál hefur verið til umræðu í sjö daga en án þess að hæstv. ráðherrar, sem fara með málaflokka sem hafa beina þýðingu fyrir málið, hafi látið sjá sig hér í þingsal til að ræða það þrátt fyrir endurteknar beiðnir þar um. Hæstv. mennta- og barnamálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, hefur ekki sést hér og heldur ekki hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson. Við höfum endurtekið óskað eftir nærveru þeirra, og sérstaklega gagnvart hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra, bæði í 1. umr. og núna í 2. umr., án þess að þeir hafi tekið þátt í umræðunni. Það er ótrúlegt, svo að ekki sé meira sagt, að á þessum sjö dögum hafi ráðherrar ekki fundið tíma til þess að mæta hér og mæta þingmönnum og svara fyrir sitt málefnasvið í tengslum við þetta mál. Ég á mjög erfitt með að trúa því að það hafi reynst þeim ómögulegt í allan þennan tíma sem þetta mál hefur verið til umræðu. Ég auglýsi enn og aftur eftir nærveru þeirra hér.