Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[03:48]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherrar bera ábyrgð á þessum málaflokkum sínum og þeir bera líka ábyrgð gagnvart skjólstæðingum málaflokka sinna. Því var lýst sem gríðarlegum áfanga að hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra fengi til sín þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd. Þetta þótti ofsalega góður fengur fyrir Vinstri græn og þetta myndi hafa svo ríkulega þýðingu fyrir réttindi fólks á flótta. En hvar er ráðherra, virðulegi forseti? Af hverju er hann ekki hér að standa vörð um réttindi þessa hóps? Til hvers var verið að færa honum þennan málaflokk þegar hann getur ekki einu sinni dröslast hingað í þingið í einn dag í umræðu sem er búin að standa yfir í marga daga til þess að svara fyrir sinn þátt í þessu máli? Eftir hverju var Vinstrihreyfingin – grænt framboð eiginlega að sækjast þegar hún óskaði eftir þessum málaflokki, til að skreyta sig með fjöður sem hún er tilbúin að láta fjúka í burtu við minnsta mótlæti.