Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  3. feb. 2023.

dagskrártillaga.

[04:26]
Horfa

Forseti (Birgir Ármannsson):

Forseti vill tilkynna að honum hefur borist eftirfarandi dagskrártillaga og eftirfarandi bréf, sem hljóðar svo:

„Undirritaður gerir það að tillögu sinni, í samræmi við 1. mgr. 77. gr. þingskapalaga, að dagskrá næsta þingfundar verði svohljóðandi:

1. Störf þingsins.

2. Greiðslureikningar, 166. mál, lagafrumvarp fjármála- og efnahagsráðherra. — 2. umr.

3. Peningamarkaðssjóðir, 328. mál, lagafrumvarp fjármála- og efnahagsráðherra. — 2. umr.

4. Sértryggð skuldabréf og fjármálafyrirtæki (sértryggð skuldabréf), 433. mál, lagafrumvarp fjármála- og efnahagsráðherra. — 2. umr.

Með þessu er lagt til að dagskrá 60. þingfundar verði samhljóða dagskrá 59. þingfundar, að því undanskildu að ekki er sett á dagskrá 382. mál, frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 80/2016 (alþjóðleg vernd). Þannig gefst tækifæri til að liðka fyrir umræðum um þau þrjú lagafrumvörp sem beðið hafa 2. umr. eftir útlendingafrumvarpi alla vikuna sem bendir til þess að stjórnarmeirihlutanum þyki brýnt að ljúka umræðu um þau. Auk þess gefur það allsherjar- og menntamálanefnd tækifæri til að kalla útlendingafrumvarpið til frekari umfjöllunar áður en 2. umr. lýkur í málinu svo hægt sé að vinna það betur og freista þess að svara þeim spurningum sem enn er ósvarað og eiga betra samtal við umsagnaraðila.

Þess er óskað að tillagan verði borin upp til afgreiðslu í samræmi við áðurnefnda grein þingskapa.“

Undir þetta bréf ritar Andrés Ingi Jónsson. Þessi tillaga verður borin upp til atkvæða í upphafi næsta þingfundar.