Bráðabirgðaútgáfa.
153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

sala á flugvél Landhelgisgæslunnar.

[10:31]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp í stól strax að loknum fundi í fjárlaganefnd með þessa spurningu: Myndi dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins selja slökkviliðið vegna þess að ekki hafi kviknað nægilega oft í húsinu, heimilinu? Myndi ráðherra Sjálfstæðisflokksins selja slökkviliðið? Þetta er einhvern veginn sú spurning sem við stöndum frammi fyrir. Það er vísað í 98 klukkustunda aðgerðir af hálfu Landhelgisgæslunnar sem röksemd fyrir því að selja þá vél sem við höfum verið að ræða hér í þingsal. Það fór ekkert samtal fram í fjárlaganefnd. Það hefur ekkert samtal átt sér stað í utanríkismálanefnd. Ég ætla bara að leyfa mér að lýsa því yfir að það ríki fullkominn trúnaðarbrestur hér varðandi þá upplýsingagjöf sem hæstv. dómsmálaráðherra stundaði í fjárlagavinnunni varðandi þennan málaflokk. Fjárlaganefnd studdi hann heils hugar í auknum framlögum til löggæslu og fangelsismála og sú mynd sem teiknuð var upp fyrir fjárlaganefnd um stöðu Landhelgisgæslunnar var einfaldlega röng af hálfu dómsmálaráðherra.