Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

sala á flugvél Landhelgisgæslunnar.

[10:44]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Það sem við erum að horfa upp á hérna er að það er verið að kasta vélinni — hún fer fyrst til Ítalíu til 23. febrúar eða eitthvað svoleiðis — og ekkert í staðinn, það á bara að finna einhverjar lausnir. Lausnin sem er verið að ýja að er kannski eitthvert samstarf við Svía sem eru alveg dekkaðir, það er ekkert í boði. Það er einhver vél Isavia sem er eins og, það kom fram á fundi nefndarinnar þó að það hafi ekki verið farið beint í það, að nota kettling í staðinn fyrir leitarhund til að leita að fólki í snjóflóði. Það er ekki sambærilegt. Við erum með bil sem við vitum ekkert hvernig á að brúa. Það er rosalega ábyrgðarlaust af ráðherra að byrja á því að henda tækinu í ruslið áður en hann finnur nýtt. Þegar þessi vél var keypt og var tekin í notkun 2009 hafði verið heimild í fjárlögum frá 2006 til að kaupa nýja vél, sem var skrifað undir 2007. Það tók rúmt ár að útbúa vélina, líka í samvinnu við Svía, en nú er byrjað á algerlega öfugum enda. (Forseti hringir.) Það er byrjað á því að henda vélinni í ruslið. Og hvað svo? Það veit enginn og það er það sem stjórnmál eiga að snúast um, að vita svörin fyrir fram.