Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

sala á flugvél Landhelgisgæslunnar.

[10:45]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegur forseti. Fundarstjórn forseta er almennt góð, ég ætla ekki að tala mikið um hana. Ég ætla líka að biðja okkur um að verja ekkert allt of löngum tíma í tal um flugvélar þó að þetta sé hitamál akkúrat í dag og í gær. Við vitum að almennt eru skattpeningar skilgreindir þannig að fyrsta króna skattgreiðandans fari í að verja landið hans innrásum en önnur krónan fari í að verja hann sjálfan árásum samborgaranna eða annarra. Miðað við hvað aðrar þjóðir verja stórum hluta af sínu árlega búdsjetti til varnarmála, hernaðarmála og slíks, þá held ég að við gætum alveg réttlætt meiri útgjöld á þeim vettvangi. En ég er með hugmynd um að við gætum leyst þetta með einföldum hætti. Það er ekki alveg jafn skýrt til hvers Isavia þarf að reka flugvél eins og Landhelgisgæslan. Henni ber skylda til að verja þá sem eru á sjó úti, lenda í slysum og öðru. Þetta eru líka skilaboð um varnarmátt okkar sjálfra, við eigum ekki að veikja hann. (Forseti hringir.) Ég legg til að við látum flugvél Isavia róa og látum framlög þeirra af hverjum túrista sem lendir á landinu renna til að (Forseti hringir.) reka þá vél sem við viljum ekki missa hér. Við getum léttilega undið ofan af þessu.