153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

dagskrártillaga.

[10:58]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég vil klára að lesa dagskrártillöguna sem forseti var að lesa:

„Þannig gefst tækifæri til að liðka fyrir umræðum um þau þrjú lagafrumvörp sem beðið hafa 2. umr. eftir útlendingafrumvarpi alla vikuna sem bendir til þess að stjórnarmeirihlutanum þyki brýnt að ljúka umræðu um þau. Auk þess gefur það allsherjar- og menntamálanefnd tækifæri til að kalla útlendingafrumvarpið til frekari umfjöllunar áður en 2. umr. lýkur í málinu svo hægt sé að vinna það betur og freista þess að svara þeim spurningum sem enn er ósvarað og eiga betra samtal við umsagnaraðila.“

Við berum aftur fram þessa dagskrártillögu til þess að liðka fyrir störfum þingsins og til þess að hægt sé að vinna nauðsynlegar breytingar á útlendingafrumvarpinu sem, eins og ítrekað hefur komið fram, eru verulegar efasemdir uppi um hvort standist stjórnarskrá og því rétt að vinna málið betur áður en það er borið hér upp til atkvæða fyrir þingmenn. Við hvetjum því alla hv. þingmenn og hæstv. ráðherra til þess að greiða þessari tillögu atkvæði sitt.