Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[11:06]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Hér rjúka ráðherrar út úr þingsalnum og ætla augljóslega ekki að ræða sína aðkomu að þessum málum. Eins og í svo mörgum þjóðþrifamálum ríkir þagnarbindindi hjá ríkisstjórninni sem ætlar alls ekki að taka þátt í lýðræðislegri umræðu hér í þingsal. Hún gjammar eitthvað smá í fjölmiðlum og lætur sig svo hverfa eitthvert annað en til þess að gæta málefnasviðs. Ráðherra barnamála er farinn. Hann ætlar ekki að ræða um réttindi barna á flótta, sem við höfum góða ástæðu til að ætla að sé stefnt í voða með samþykkt þessa frumvarps. Við vitum það t.d. og það er mjög skýrt af ákvæðum þessa frumvarps að verði það að lögum þá á að lögfesta ákvæðið sem getur gert það að verkum að aðgerðir foreldra geta bitnað á börnum. Þetta er þvert á ákvæði barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. En hæstv. mennta- og barnamálaráðherra hefur engan áhuga á að ræða það hér. Hann rýkur út um leið og færi gefst. Um leið og hann er búinn að greiða atkvæði með því að málið skuli áfram rætt þá hleypur hann út úr þingsal, hræddur við að taka þátt í lýðræðislegri umræðu um þetta mál, mögulega vegna þess að hann hefur vondan málstað að verja. Sömuleiðis hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra, maðurinn sem átti að gjörbreyta móttöku fólks á flótta. Það átti að vera svo mikill sigur að Vinstri græn væru komin með þennan málaflokk í hendurnar, að hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra Guðmundur Ingi Guðbrandsson væri kominn með þennan málaflokk í hendurnar. Hann hefur ekki fengist til að segja píp nema þegar hann kemst ekki hjá því í óundirbúnum fyrirspurnatíma og þá er það stærsta sem frá honum hefur komið þetta: Það er ekki um það deilt að þetta mál er umdeilt. Þetta er það sem maðurinn hefur um þetta að segja, hæstv. ráðherra. Vissulega er þetta mál umdeilt, hæstv. ráðherra. Hver er hans skoðun? Hún hefur ekki komið fram, hvergi, önnur er sú að málið er umdeilt, sem ég held að þurfi ekki ráðherradóm til þess að komast að niðurstöðu um.

Virðulegur forseti. Það er auðvitað með miklum ólíkindum að ráðherrar ríkisstjórnarinnar, sem fara með málaflokka sem verða fyrir beinum áhrifum af þessu frumvarpi, þar sem uppi er hvert álitið, hver umsögnin á fætur annarri um að brotið sé á réttindum skjólstæðinga hæstv. ráðherra með samþykkt frumvarpsins, hafi ekki orð um þetta að segja, að þeir vilji ekki tjá sig hér í þingsal. Til hvers fengu þeir þessa málaflokka í hendurnar ef þeir þora svo ekki að mæta og standa fyrir máli sínu þegar á reynir?

Virðulegur forseti. Við höfum umsagnir frá mannréttindasamtökum, frá mannréttindastofnunum á borð við Mannréttindastofnun Háskóla Íslands sem bendir á hvert ákvæðið á fætur öðru í stjórnarskrá sem efasemdir eru uppi um að þetta frumvarp standist. Hér erum við m.a. að tala um 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands sem felur í sér bann við pyndingum og annarri ómannúðlegri vanvirðandi meðferð eða refsingu. En hér kemur enginn til að svara fyrir það. Mannréttindastofnun Háskóla Íslands segir: Það hlýtur að þurfa að skoða þetta. Það hlýtur að þurfa að fara fram efnislegt mat á því, þegar jafn augljósar sannanir eru uppi um að þetta mál stangast á við þetta ákvæði þá hlýtur að þurfa fara fram efnislegt mat á því hvort það standist stjórnarskrá. En nei, okkur er neitað um lögfræðiálit, ráðuneytið framkvæmdi ekki sjálfstætt mat á því hvort þetta stæðist stjórnarskrá og síðan er bara þagnarbindindi stjórnarliða. Þau ætla bara að þegja af sér stjórnarskrárbrotin. Það á bara að rúlla þessu í gegnum atkvæðagreiðslu og vera í þagnarbindindi þangað til að þessu illa verki er aflokið.

Við stöndum ekki fyrir slík stjórnmál, virðulegur forseti. Við munum standa áfram hér og kalla eftir svörum og kalla eftir útskýringum frá þeim ráðherrum sem eiga að standa vörð um stjórnarskrárvarin réttindi barna, þeim ráðherrum sem eiga að standa vörð um stjórnarskrárvarin réttindi fólks á flótta, að þau komi hér og svari fyrir þetta skelfilega frumvarp, sem nokkurn veginn allir umsagnaraðilar eru sammála um að sé skelfilegt frumvarp og benda á margvíslega þætti; þjónustuskerðinguna, að senda fólk bara eitthvert án þess að hafa nokkra fullvissu fyrir því að viðkomandi hafi leyfi til dvalar, einhvers konar vernd mannréttinda, að flóttamannasamningurinn sé einu sinni í gildi. Við ætlum að búa til stærri hóp fólks sem býr við algera örbirgð og fátækt. (Forseti hringir.) En hér er salurinn orðinn auður. Þingheimur skilar auðu gagnvart mannréttindabrotum þessarar ríkisstjórnar.