Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[11:11]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég var hér með yfirferð yfir umsagnir sem hafa verið sendar inn í þessu máli. Ég er búinn að fara yfir efnisinnihald, gróflega, frá Barnaheill, landlækni, Hafnarfjarðarbæ, Íslandsdeild Amnesty International, Kvenréttindafélagi Íslands, Þroskahjálp, Læknafélaginu, mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkur, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Mannréttindastofnun Háskóla Íslands og ég var að klára að fara yfir umsögn presta innflytjenda og flóttafólks. Ég var ekki alveg búinn að klára það í nótt þegar þingfundi var slitið þannig að ég ætla aðeins að rifja upp. Þetta er reyndar allt af svipuðum meiði. Endurtekningarnar hérna eru nefnilega alveg svakalegar á milli allra umsagnaraðila.

Prestar innflytjenda og flóttafólks gera sérstaklega athugasemd við brottfall þjónustu, sem er 6. gr. frumvarpsins, þ.e.:

„Ef breytingin nær fram að ganga þá þýðir það að grundvallarþjónusta er varðar heilsu, öryggi og velferð verður tekin frá viðkomandi einstaklingum sem þurfa þá að leita skjóls á götunni, hafi þau ekki yfirgefið landið sjálfviljug.“

Þetta fólk, prestar innflytjenda og flóttafólks, veit hvernig þetta virkar. Ég skora á hvern sem er að rengja reynslu þeirra af þessum málaflokki, þannig að hlustið á það sem þau eru að segja þarna. Þó að ég sé nú ekki kirkjunnar maður þá veit ég að þetta er heiðarlegt fólk.

„Að okkar mati hlýtur slík framkvæmd af hálfu ríkisins að stangast á við grundvallarstefnu íslensku þjóðarinnar sem byggir á virðingu fyrir mannréttindum og skyldu okkar til að standa vörð um velferð allra sem dvelja á landinu. […] Það er staðreynd að fólk á flótta er viðkvæmur hópur sem er berskjaldaðri en aðrir fyrir því að verða fórnarlömb mansals og ofbeldis.“

Aftur: Þetta er fólk sem veit hvað það er að tala um. Það hefur séð þetta allt áður. Það sér hvaða áhrif þessi breyting getur haft.

„Við teljum afar mikilvægt að hlúa áfram að þessum hópi til þess að hann komist ekki í slíkar örvæntingarfullar aðstæður að það skapi ný vandamál sem hefðu afar neikvæð áhrif á þessa einstaklinga og samfélagið allt. Sem myndi fylgja ýmis beinn og óbeinn kostnaður við að bregðast við.“

Þarna er ekki skilvirkniaukning, langt í frá. Þarna erum við kannski — kannski — að kaupa skilvirkniaukningu á einum stað í kerfinu og fá heimilislaust fólk, mansal og ofbeldi í staðinn annars staðar í kerfinu. Í umsögninni segir:

„Það er fyrirsjáanlegt að niðurfelling grunnþjónustu þvingar fólk í erfiða stöðu sem aftur skapar álag á önnur félagsleg kerfi eins og til dæmis sveitarfélög og ýmis hjálparsamtök, þ[ar] sem fólk leitar í neyð.“

Þetta er fólk sem þekkir málaflokkinn, veit nákvæmlega hvað það er að tala um þegar kemur að þessum málum. Þess vegna höfum við t.d. kallað eftir félags- og vinnumarkaðsráðherra til að útskýra fyrir okkur hvernig áhrif reglur um fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna hafa á útlendinga í neyð, en þar eru reglur um hvað gerist ef útlendingur uppfyllir kröfur um neyðaraðstoð. Þá fær hann lágmarksframfærslu sveitarfélaga og greidda húsaleigu, væntanlega af sveitarfélögum. Þarna er verið að velta kostnaði úr einum vasa yfir í næsta vasa. Mjög klassískt. Ríkisstjórnin er að firra sig ábyrgð, veltir ábyrgðinni yfir á einhverja aðra.

Þannig að, eins og ég segi, þó að ég sé ekki trúrækinn maður eða kvitti ekki upp á æðri máttarvöld o.s.frv., þá veit þetta fólk samt hvað það er að tala um í þessum málaflokki. Mér finnst alveg ótrúlegt að þurfa að upplifa það að þegar maður er að benda á umsagnir þessara aðila fáum við bara frammíköll úr sal: Nei, nei þetta brýtur engin stjórnarskrárréttindi eða mannréttindi. Það er bara svoleiðis, fullyrðing í frammíkalli í staðinn fyrir að það sé komið hérna í ræðustól Alþingis og útskýrt að hvaða leyti prestar innflytjenda og flóttafólks hafa rangt fyrir sér. Að hvaða leyti hefur þetta fólk rangt fyrir sér? Í alvörunni? Þetta er rosalega einföld umsögn af mikilli reynslu. Nei, það er bara sagt: Þetta hefur engin áhrif, samkvæmt einhverjum sem kallar úr sal. (Forseti hringir.) — Ég bið forseta vinsamlegast um að setja mig aftur á mælendaskrá.