Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[11:17]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að geta rætt þetta mál í dagsbirtu en hér á næturfundum hef ég verið að fara í gegnum hina ýmsu alþjóðasáttmála sem þetta frumvarp stangast á við. Þar sem ég veit að margir þingmenn voru eflaust sofandi í nótt þegar ég var að fara yfir ákveðin atriði sem eru mjög mikilvæg þá tel ég að það sé gott fyrir mig að endurtaka þau hér í björtu. Mig langaði sérstaklega að taka fyrir einn af þeim liðum frumvarpsins sem við höfum ítrekað bent á að brjóti í bága við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Við höfum komið því á framfæri til hæstv. mennta- og barnamálaráðherra nákvæmlega hvað við erum að tala um þar en bara ef hæstv. ráðherra skyldi hafa gleymt því eða ef aðrir hafa ekki heyrt þessa skýringu þá langar mig að fara í að bera saman annars vegar 2. mgr. 2. gr. barnasáttmálans sem, fyrir þá sem ekki vita, er löggiltur á Íslandi sem þýðir að þetta er jafngilt íslenskum lögum. Annars vegar ætla ég að bera saman 2. mgr. 2. gr. og hins vegar c-lið 8. gr. frumvarpsins. Ég ætla að reyna að gera þetta á þann máta að þetta verði skiljanlegt þrátt fyrir mjög tyrfinn lagafræðilegan texta. En í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna stendur, með leyfi forseta:

„Aðildarríki skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til að sjá um að barni sé ekki mismunað eða refsað vegna stöðu eða athafna foreldra þess, lögráðamanna eða fjölskyldumeðlima, eða sjónarmiða sem þeir láta í ljós eða skoðana þeirra.“

Með öðrum orðum má ekki refsa börnum fyrir það sem foreldrar þeirra gera. Punktur. Það er á eins einföldu máli og ég get sagt það.

Í 8. gr. frumvarpsins er verið að taka á þessu svokallaða 12 mánaða tímabili. Þetta var mjög mikilvæg réttarbót sem einmitt hæstv. barna- og menntamálaráðherra, sem þá var barna-, félags- og eitthvað annað-ráðherra, náði að semja um við þáverandi hæstv. dómsmálaráðherra, Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, að bæta inn í lögin vegna þess að það höfðu of mörg mál komið upp þar sem börn höfðu verið hér í lengri tíma, lengur en ár, og höfðu myndað mikil tengsl við Ísland og við vildum tryggja það að þau fengju efnislega meðferð. En nú er verið að breyta því og þá stendur í 8. gr., c-lið, með leyfi forseta, en þar er aftur verið að segja að það eigi að fara í efnismeðferð ef ekki hefur fengist endanleg niðurstaða á fyrstu 12 mánuðum:

„… enda hafi umsækjandi sjálfur, maki eða sambúðarmaki hans eða annar sem kemur fram gagnvart stjórnvöldum fyrir hans eða þeirra hönd ekki átt þátt í því að niðurstaða hafi ekki fengist innan tímamarka.“

Frú forseti. Þarna er verið að segja að ef einhver kom fram fyrir hönd viðkomandi og tafði málið þá gildi 12 mánaða reglan ekki. Rifjum svo upp aftur hvað barnasáttmálinn sagði: Það má ekki refsa börnum fyrir aðgerðir foreldra. En þessi ákveðna grein gerir nákvæmlega það vegna þess að þar sem stendur umsækjandi þá getur það verið barn og ef einhver tengdur barninu tafði málið er því refsað fyrir það, sem brýtur akkúrat gegn 2. mgr. 2. gr. barnasáttmálans. (Forseti hringir.) — Ég ætla að óska eftir því, frú forseti, að fá að komast aftur á mælendaskrá.