Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[11:22]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Mig langar að rifja aftur upp hvers vegna við erum að þessu, kannski mikilvægasta þáttinn. Eitt af því versta í þessu frumvarpi, það er náttúrlega svo margt vont í frumvarpinu, er fyrirætlun um að stórfjölga í hópi fólks sem er heimilislaust, getur ekki séð sér farborða og er alls ekki viljandi heimilislaust heldur einfaldlega vegna þess að það er ekki hægt að vísa þeim úr landi og þau hafa ekki rétt til að vinna fyrir sér og þau hafa engan aðgang að samfélaginu. Þetta stendur til að gera þannig að fólki í þessum hópi snarfjölgi. Ég hef verið að vísa í góða skýrslu frá Rauða krossinum þar sem þetta er áréttað og vil nota tækifærið til að endurtaka þetta í björtu vegna þess að það eru kannski ekki allir við viðtækin klukkan fjögur um nótt. Núna er a.m.k. mannsæmandi tími til að standa hérna í ræðustól Alþingis og tala um hvað það er — ég skil ekki enn þá hvers vegna stjórnarmeirihlutinn, þingmenn Framsóknar, þingmenn Vinstri grænna og meira að segja þingmenn Sjálfstæðisflokksins, vilja fjölga í hópi heimilislausra á Íslandi. Ég skil það ekki og ég hef ekki enn þá fengið viðeigandi svör við því. Og það er raunverulega það sem mun gerast verði þessi 6. gr. frumvarpsins að lögum, virðulegi forseti. Það er algjörlega skýrt. Það kemur mjög vel og skilmerkilega fram, bæði í umsögn Rauða krossins við frumvarpið, í öðrum umsögnum líka sem ég hef ekki talið upp og sömuleiðis í þessari skýrslu um aðstæður einstaklinga sem fengið hafa lokasynjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd en ekki er hægt að flytja úr landi af einhverjum ástæðum.

Ég vil fara yfir þann kafla í þessari skýrslu sem fjallar um akkúrat þetta. Á bls. 5 í þessari ágætu skýrslu stendur, með leyfi forseta:

„Með því að kveða á um niðurfellingu á þjónustu er varðar grunnvelferð fólks er hætta á að alvarleg vandamál skapist. Umræddir einstaklingar yrðu þar með berskjaldaðir fyrir hvers kyns misneytingu, mansali og ofbeldi. Breytingin hefði þau áhrif á íslenskt samfélag að heimilislausu fólki myndi fjölga, örbirgð og neyð aukast. Samhliða því myndu líkurnar á skaðlegri hegðun og afbrotum aukast. Ljóst er að álag á félagsleg kerfi sveitarfélaga og lögreglu mun aukast, samhliða breytingunni.“

Ég hlýt að taka undir með Rauða krossinum þegar þau segja, með leyfi forseta:

„Sumir þeirra sem fengið hafa lokasynjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd hafa í reynd verið strandarglópar hér á landi frá árinu 2017 og því dvalið hér í fimm ár. Þar sem enga lausn er að finna fyrir þessa einstaklinga í núgildandi lögum telur Rauði krossinn rétt að einhvers konar lausn verði tekin upp í frumvarp dómsmálaráðherra sem t.a.m. auðveldar þeim að komast á vinnumarkað og framfæra sér og sínum.“

En nei, það sem stendur til að gera er að henda þeim á götuna án framfærslu og án getu til þess að sjá fyrir sér sjálf, af því að ekki hafa þau atvinnuleyfi. Í staðinn fyrir að auðvelda fólki að sjá sér sjálft farborða á að tryggja það að þau búi við algjöra neyð á Íslandi. Ástæðan fyrir því að þetta er gert er að kúga þau til að fara sjálfviljug úr landi. Þetta finnst mér vera ómannúðleg meðferð, virðulegur forseti. Mér finnst þetta vera ofbeldi sem stendur til að beita fólk á flótta. Langoftast eru ástæðurnar fyrir því að fólk getur ekki farið héðan úr landi bara góðar og gildar. Það er óforsvaranlegt, meira að segja þótt þær séu ekki góðar og gildar, að koma svona fram við fólk. Það er algerlega óforsvaranlegt.

Ég hef líka verið að koma inn á hvernig þessar undantekningar sem verið er að tala um að séu á því að hægt sé að henda fólki á götunni séu hvorki fugl né fiskur. Miðað við framkvæmdina hjá Útlendingastofnun verður mjög erfitt að komast í gegnum það nálarauga að heita alvarlega veikur einstaklingur eða þá að heita einstaklingur sem er fatlaður með langvarandi stuðningsþarfir, vegna þess að Útlendingastofnun sinnir ekki frumkvæðisskyldu sinni um að afla gagna um hvort viðkomandi einstaklingar falli undir þessar skilgreiningar. (Forseti hringir.) — Ég mun halda áfram að ræða þetta í næstu ræðu og óska eftir að verða sett aftur á mælendaskrá.