153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[11:38]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Ég hef verið að fara yfir hversu ómögulegt það er fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd að fá viðurkenningu á stöðu sinni sem einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Mér finnst mikilvægt að fara yfir það líka í björtu vegna þess að ég tel að það sé ekki fullnægjandi að segja frá því í skjóli nætur. Ég hef verið að fjalla um áhrif 6. gr. frumvarpsins og mér finnst mjög mikilvægt að við fjöllum mjög ítarlega um áhrif af þessari grein vegna þess að þau eru svo alvarleg. Við erum að snúa á ákveðna braut og ég held að þegar við förum inn á hana verði ekki aftur snúið þegar kemur að innleiðingu á mannvonsku á Íslandi, ég get svo svarið það, vegna þess að verði 6. gr. frumvarpsins að lögum þá erum við að fara að fjölga í hópi heimilislausra. Ég vil fara yfir hvers vegna þessar undantekningar, sem menn bera fyrir sig að muni koma í veg fyrir að fólk í sérstaklega viðkvæmri stöðu verði hent á götuna, eru ekki jafn umfangsmiklar eða áreiðanlegar og raun ber vitni. En ég vil samt gera það með þeim fyrirvara að mér finnst ekki ásættanlegt að senda neina á götuna og neita þeim um að geta unnið fyrir sér og sömuleiðis um aðgengi að læknisaðstoð. Ég velti fyrir mér hvort fólk hafi hugsað þetta til enda, því að hvað á svo að gera? Tökum dæmi: Ungri konu er vísað á götuna vegna þess að það er ekki hægt að vísa henni til Íraks. Hún er síðan á götunni, þjónustusvipt, og lendir í því að verða ófrísk. Þá er búið að taka ákvörðun um synja henni um þjónustu. Þá er búið að taka ákvörðun um að henda henni á götuna. Hvernig á þessu undantekning að eiga við eftir að það er búið að henda henni á götuna? Ég veit það ekki, ég held ekki að hún muni gera það. Og hvað verður þá um barnið hennar?

Í umsögn Rauða krossins kemur fram, með leyfi forseta:

„Í 6. gr. frumvarpsins segir að ekki sé heimilt að fella niður réttindi alvarlega veikra einstaklinga og fatlaðra einstaklinga með langvarandi stuðningsþarfir. Í athugasemdum við frumvarpsgreinina segir að með alvarlegum veikindum sé átt við þá einstaklinga sem ekki séu fyllilega færir um að sjá um sig sjálfir, hvort sem er vegna andlegra eða líkamlegra veikinda, og velferð þeirra yrði alvarlega ógnað ef réttindi þeirra yrðu niður felld.“

Og aftur: Ég held að velferð allra yrði alvarlega ógnað ef réttindi þeirra til heilbrigðisþjónustu, aðgengi þeirra að húsnæði, getu til að fá eitthvað að borða, yrðu niður felld, eins og þetta er orðað á lagamáli hérna. En hérna er verið að tala um alvarlega veikt fólk. Ef þú ert bara venjulegan veik þá má henda þér á götuna:

„Með fötluðum einstaklingi með langvarandi stuðningsþarfir sé átt við þá sem hafi þörf fyrir þjónustu og/eða stuðning sem sé meiri eða sérhæfðari en svo að þörfinni verði fullnægt innan almennrar þjónustu.“

Þá verð ég að segja aftur: Það er verið að svipta fólk allri almennri þjónustu þannig að ég skil ekki alveg af hverju er verið að setja þennan þröskuld, vegna þess að ef þú ert bara með fötlun án þess að vera með langvarandi stuðningsþarfir sem hægt er að sinna með almennri þjónustu þá nýturðu samt engrar þjónustu. Ég skil ekki hvernig þetta dæmi á að ganga upp, virðulegi forseti:

„Með fötluðum einstaklingi með langvarandi stuðningsþarfir sé átt við þá sem hafi þörf fyrir þjónustu og/eða stuðning sem sé meiri eða sérhæfðari en svo að þörfinni verði fullnægt innan almennrar þjónustu.“

Síðan kemur mikilvægi punkturinn, virðulegi forseti, sem mér finnst mikilvægt að endurtaka í björtu, sem er:

„Rauði krossinn hefur um margra ára skeið gert margháttaðar og alvarlegar athugasemdir við mat Útlendingastofnunar á því hvort umsækjendur um alþjóðlega vernd teljist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu vegna veikinda eða fötlunar en svo virðist sem verulega þröng skilyrði þurfi að uppfylla svo umsækjendur geti talist í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Skilgreiningu á einstaklingi í sérstaklega viðkvæmri stöðu má finna í 6. tölul. 3. gr. útl. en þar segir:

„Einstaklingar sem vegna tiltekinna persónulegra eiginleika eða aðstæðna hafa sérþarfir sem taka þarf tillit til við meðferð máls eða geta ekki að fullu eða með engu móti nýtt sér rétt eða uppfyllt skyldur sem kveðið er á um í lögum þessum án aðstoðar eða sérstaks tillits, t.d. fylgdarlaus börn, fatlað fólk, fólk með geðraskanir eða geðfötlun, aldrað fólk, þungaðar konur, einstæðir foreldrar með ung börn, fórnarlömb mansals, alvarlega veikir einstaklingar og einstaklingar sem hafa orðið fyrir pyndingum, kynfæralimlestingum, nauðgun eða öðru alvarlegu andlegu, líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi.““

Eins og ég hef komið inn á (Forseti hringir.) þá mun þessi undantekning alls ekki ná utan um nema brotabrot af þessum hópi sem er í sérstaklega viðkvæmri stöðu. (Forseti hringir.) Öllum hinum má henda á götuna. — Ég óska eftir að verða sett aftur á mælendaskrá.